Takmarkalaus valdagræðgi

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir að aðför núverandi stjórnarflokka að forseta Alþingis sé með ólíkindum og sýni svo ekki verði um villst að valdagræðgi Samfylkingarinnar sé takmarkalaus.

„Ég hef fylgst úr fjarlægð með því sem hefur verið að gerast í stjórnmálum heima, en einnig í töluverðri forundran,“ sagði Geir í samtali við Morgunblaðið í gær, þegar blaðamaður náði tali af honum þar sem hann er enn undir læknishendi í Amsterdam í Hollandi eftir að hafa undirgengist vel heppnaða aðgerð á mánudag. Hann er væntanlegur til landsins á morgun.

„Ég vil sérstaklega nefna eitt atriði sem er aðför hinna nýju stjórnarflokka að Sturlu Böðvarssyni, forseta Alþingis. Mér þykir sæta mikilli furðu ef Framsóknarflokkurinn ætlar að taka þátt í því að bola núverandi forseta Alþingis úr embætti sem hefur notið almenns trausts og viðurkenningar fyrir störf sín og hann fékk nánast öll atkvæði þingsins þegar hann var kosinn í þetta ábyrgðarmikla starf,“ sagði Geir.

Geir bendir á að reglur þingsins, samkvæmt nýjum þingsköpum, séu þær að meirihluti þingmanna verði að óska eftir kosningu á nýjum forseta ef það eigi að gera breytingu því forsetinn sé kosinn út kjörtímabilið. „Það þýðir í raun og veru það að meirihluti þingsins, 32 þingmenn í það minnsta, verða að lýsa vantrausti á forseta,“ sagði Geir, „og mér finnst það lýsa takmarkalausri valdagræðgi Samfylkingarinnar ef hún ætlar að krefjast þess að það verði kosinn nýr forseti á hennar vegum, til þess að sitja þær fáu vikur sem eftir eru af þinghaldi, eingöngu til þess að þjóna þröngum flokkshagsmunum þar sem hinar ólíku valdaklíkur Samfylkingarinnar takast á.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert