Var bara svarað að hálfu

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður.
Siv Friðleifsdóttir alþingismaður. Eggert Jóhannesson

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður furðar sig á því að svör viðskiptaráðuneytisins sem send voru til breska fjármálaráðuneytisins 14. ágúst fylgdu ekki í svari viðskiptaráðherra í dag. Í fyrirspurninni óskaði Siv eftir bréfum ráðherrans sem send voru til Breta um miðjan ágúst og 5. október.

Siv sagði það ljóst af svari viðskiptaráðherra að dæma að þegar í ágúst í fyrra hafi Bretum verið gefin skýr skilaboð. Í þeim hafi falist að íslensk stjórnvöld myndu gera það sem í þeirra valdi stæði til þess að styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að greidd yrði lágmarkstrygging upp á 20.887 evrur.

„Það er alveg ljóst að um miðjan ágúst er hreinlega sagt að ríkisstjórnin muni gera þetta. Þegar bankahrunið varð voru skilaboðin allt önnur. Þá fóru íslensk stjórnvöld út í lagatúlkanir. Ég sé ekki betur en að skilaboðin frá íslenskum stjórnvöldum hafi verið afar misvísandi á þessum tíma,“ sagði Siv.

Hún minnti á að bresk stjórnvöld hafi borið því við, vegna beitingar hryðjuverkalaganna gegn Íslendingum, að það hafi ekki komið skýr skilaboð frá íslenskum stjórnvöldum um hvað þau ætluðu að gera.

Í fyrirspurn Sivjar var spurt hvernig bréf ráðherrans sem send voru um miðjan ágúst og 5. október hafi hljóðað. Siv furðar sig á því að í svari viðskiptaráðherra kemur fram að breska fjármálaráðuneytinu var sendur tölvupóstur 14. ágúst þar sem nokkrum spurningum Breta var svarað, en hann fylgdi ekki með í svarinu til Sivjar. Einungis bréf frá 20. ágúst þar sem svarað er tveimur spurningum og eins bréfið frá 5. október.

„Mér finnst að mér hafi bara verið svarað að hálfu leyti. Ég bað um bréf frá miðjum ágúst og  14. ágúst er nær miðjum ágúst en 20. ágúst. Ég veit ekkert hvað er í þessum tölvupósti frá 14. ágúst. Ég mun biðja um hann líka, fyrst hann kom ekki í þessari umferð,“ sagði Siv.

Siv þótti einnig athyglisvert að sjá í bréfi ráðuneytisins að kæmi til þess að gert yrði áhlaup á íslenskar fjármálastofnanir gæti Seðlabankinn veitt aðstoð sem lánveitandi til þrautarvara og ríkisstjórnin myndi styðja hann í því hlutverki. Siv taldi að skoða þyrfti betur hvaða skilaboð voru í þessu fólgin.

Fyrirspurnin var lögð fram fyrir jól þegar nokkrir þingdagar voru eftir. Siv sagði að svara ætti fyrirspurnum af þessu tagi eftir mest tíu virka daga.  „Ég furða mig á því hvers vegna ég fékk ekki svarið fyrir jól. Þetta snerist bara um afrit af bréfum, það þurfti ekki að skrifa neitt í ráðuneytinu. Það vekur spurningu um hvers vegna þetta komi svona seint. Það má líka spyrja hvers vegna þetta hafi ekki komið fyrr, því nú er ráðherrann farinn frá,“ sagði Siv.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert