Viðskiptaráðherra hafði ekki vitneskju um tilboð breska fjármálaeftirlitsins um að gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu væri stofnunin tilbúin að færa reikninga Icesave yfir í breska lögsögu.
Ekki kemur fram hvaða viðskiptaráðherra leggur svarið fram en Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks lagði fyrirspurnina fram í vetur þegar Björgvin G. Sigurðsson gegndi ráðherraembættinu.
Siv spurði einnig hvort Fjármálaeftirlitið, eða forstjóri þess, fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á Landsbanka Íslands, hafi haft vitneskju um framangreint tilboð breska fjármálaeftirlitsins.
Í svarinu segir, að leitað hafi verið eftir afstöðu Fjármálaeftirlitsins vegna spurningarinnar. Í svari stofnunarinnar komi fram að Fjármálaeftirlitið geti ekki tjáð sig opinberlega um efni samskipta við aðra eftirlitsaðila þar sem það er bundið trúnaði um slíkt.