Talið er að allt að 300 milljarðar króna liggi í séreignarlífeyrissparnaði í dag í formi margvíslegra og að sama skapi misáhættusamra eigna allt eftir því hvaða sparnaðarleið rétthafi hefur valið sér. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins.
Í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að sett verði lög um séreignarsparnað sem veiti sjóðfélögum tímabundna heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda.
Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, kveða á um að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs sé 12% af iðgjaldsstofni, en stofninn er skilgreindur sem allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. lögum um tekjuskatt. Þetta iðgjald er öllum launamönnum og sjálfstæðum atvinnurekendum skylt að greiða frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Skipting iðgjaldsins milli launþega og launagreiðanda fer eftir kjarasamningum eða sérlögum ef við á.
Samkvæmt lögunum skal lágmarkstryggingavernd, sem lífeyrissjóður veitir miðað við framangreint lágmarksiðgjald og 40 ára inngreiðslutíma, vera 56% af mánaðarlaunum frá þeim tíma sem taka lífeyris hefst (lágmarkstryggingavernd í sameign).
Geri lágmarksiðgjaldið gott betur en að standa undir lágmarkstryggingaverndinni samkvæmt tryggingafræðilegri athugun má verja þeim hluta iðgjaldsins sem umfram er til öflunar réttinda í séreign. Þessu til viðbótar er heimilt að greiða allt að 4% af heildarlaunum sem iðgjald í séreignarsjóð (viðbótariðgjald). Þeir einstaklingar sem það kjósa eiga alla jafna kost á mótframlagi frá launagreiðanda sem getur numið allt að 2% til viðbótar. Sú séreign sem myndast af umræddu viðbótariðgjaldi er gjarnan nefnd frjáls séreign til aðgreiningar frá þeirri sem verður til sem hluti af skyldubundnu iðgjaldi eins og að framan er lýst, að því er segir í vefritinu.
Skattur við útgreiðslu 37,2%
Greiðsla lífeyrisiðgjalda, bæði lágmarksiðgjalds og viðbótariðgjalds í séreignarsjóði, felur í sér frestun skattlagningar þar til lífeyristaka hefst. Staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars er því dregin frá lífeyri rétthafa áður en til útgreiðslu kemur að teknu tilliti til persónuafsláttar og annast vörsluaðili skil á þeirri staðgreiðslu. Í dag er staðgreiðsluhlutfallið 37,2%, þar af er tekjuskattur til ríkisins 24,1% og útsvar til sveitarfélaga 13,1%.
Séreignarlífeyrir er laus til útborgunar við 60 ára aldur, örorku eða fráfall sjóðfélaga. Í lok árs 2008 var samþykkt sú breyting á lífeyrislögunum að vörsluaðila sé heimilt að greiða séreignarlífeyri út í einu lagi við 60 ára aldur, en samkvæmt eldri lögum skyldi greiðslu dreift á árin frá upphafi lífeyristöku þar til rétthafi næði 67 ára aldri.
Séreignarlífeyrir erfist og er laus til útborgunar við andlát sjóðfélaga. Öðru máli gegnir um samtryggingarlífeyrinn sem við andlát rétthafa er greiddur út í formi maka- eða barnalífeyris, gjarnan tímabundið, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Um 75 milljarðar skyldubundin séreign
Þeir 300 milljarðar króna sem liggja í séreignarlífeyrissparnaði samanstanda af tvenns konar séreignarsparnaði sem fyrr var lýst. Annars vegar er séreign sem myndast hefur sem hluti af skyldubundnu lágmarksiðgjaldi og hins vegar séreign sem stafar af viðbótariðgjaldi, eða allt að 6% af heildarlaunum.
Auk þess innifelur hún þann séreignarsparnað sem til varð fyrir gildistöku lífeyrislaganna 1998. Ekki liggur fyrir hvernig áðurnefndir 300 milljarðar skiptast á milli þessara flokka séreignar, en lausleg athugun bendir til þess að allt að fjórðungur hennar, eða um 75 milljarðar króna, sé að stofni til hluti af hinu skyldubundna iðgjaldi og eldri séreign.