Ásmundur verður bankastjóri tímabundið

Elín Sigfúsdóttir og Ásmundur Stefánsson.
Elín Sigfúsdóttir og Ásmundur Stefánsson. mbl.is/Ómar

Bankaráð nýja Landsbankans, NBI hf., tók í dag ákvörðun um að fresta því að auglýsa stöðu bankastjóra þar til á þriðja ársfjórðungi. Elín Sigfúsdóttir bankastjóri hefur gert bankaráðinu grein fyrir því að hún hyggist standa við fyrri ákvörðun um að láta af störfum um næstu mánaðamót eins og hún hafði áður greint frá.
 
Í tilkynningu frá bankaráðinu kemur fram, að það hafi falið Ásmundi Stefánssyni, núverandi formanni bankaráðs, að taka við hlutverki bankastjóra þar til staðan verður auglýst og í hana ráðið á haustmánuðum. Haukur Halldórsson varaformaður bankaráðs mun taka við formennsku þess og varamaður Ásmundar, Ása Richardsdóttir, tekur sæti í bankaráðinu.
 
„Meginástæða frestunarinnar er sú tímabundna óvissa sem um þessar mundir ríkir í rekstrar- og viðskiptaumhverfi bankans sem torveldar framtíðarsýn og um leið markmiðssetningu til lengri tíma litið. Af hálfu bankaráðsins verður þeirri vinnu hraðað eins og auðið er við þessar aðstæður," segir í tilkynningu bankaráðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert