Fulltrúar meirihluta og minnihluta í borgarráði deildu í dag um það hvort Guðlaugur Gylfi Sverrisson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, sem sæti átti á lista Framsóknarmanna fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, megi taka sæti í borgarráði sem varamaður.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerðu tillögu á fundi borgarráðs í dag um að samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar yrði breytt, svo að hver sá sem hefði skipað sæti á framboðslista, sem hefði fengið fulltrúa í borgarstjórn, gæti tekið þar sæti.
Í síðustu kosningum náði Björn Ingi Hrafnsson kjöri sem borgarfulltrúi, en Óskar Bergsson var varamaður hans. Anna Kristinsdóttir og Marsibil Sæmundsdóttir, sem skipuðu efstu sætin á lista Framsóknar í síðasta prófkjöri, ásamt Birni Inga og Óskari, eru hættar þátttöku í borgarmálum fyrir hönd Framsóknarflokksins. Guðlaugur G. Sverrisson sat hins vegar í 14. sæti á listanum.
Fulltrúar Samfylkingar og VG bókuðu á fundi borgarráðs að vafamál sé hvort Guðlaugur sé kjörgengur sem varamaður í borgarráðið. Vísuðu þeir í sveitarstjórnarlög og sögðu engin fordæmi um það frá nokkru sveitarfélagi að aðrir en fyrstu varamenn viðkomandi lista séu kjörnir sem varamenn í bæjarráðum. Þeir sögðu ákvæði sveitarstjórnarlaga ekki óskýr að þessu leyti, og að þau hafi aldrei verið túlkuð á þann veg sem meirihlutinn hafi lagt til.
Fulltrúar meirihlutans voru hins vegar ekki á því að lögin væru skýr um þetta, eða að þau hefðu verið túlkuð með afgerandi hætti um þetta atriði. Þá ítrekuðu þeir að tillagan myndi fara til meðferðar í borgarstjórn og til staðfestingar í samgönguráðuneytinu.