Vetrarfærðin Vestur-Evrópu hefur ekki síður áhrif á þá Íslendinga sem þar eru búsettir. Bræðurnir Daníel Þór Líndal Sigurðsson og Ísak Már Líndal Sigurðsson, sem eru sjö og þriggja ára gamlir, urðu að snúa við þegar þeir mættu í skólann sinn í Belfast á N-Írlandi í morgun.
Móðir þeirra, Ásdís Líndal, fór með drengina í skólann kl. 9 í morgun, en þegar þangað var komið var þeim tilkynnt að það væri búið að loka skólanum sökum snjókomu.
Á myndinni er ekki að sjá mikinn snjó en lokunin var vegna þess að einungis þrír kennarar og nokkrir nemendur voru mættir.
Ásdís segir að það þurfi ekki mikla snjókomu til að allt fari úr skorðum þar í landi. Þeir Daníel Þór og Ísak Már, sem voru dúðaðir í almennilegum vetrarflíkum, kvörtuðu hins vegar ekki undan því að fá frí frá skólanum í dag.