„Þessi framkoma er fyrir neðan allar hellur. Eftir 33 ára starf við að halda við aðflugstækjum á Keflavíkurflugvelli er manni vikið úr starfi fyrirvaralaust og ekkert gert til að aðstoða mann,“ segir Magnús Sigurðsson tæknimaður, sem segir menn óttast frekari uppsagnir á vellinum.
„Það er enginn undanfari að þessu. Það er verið að kasta á glæ reynslu eftir öll þessi starfsár. Ég er 59 ára gamall og á litla möguleika í öllu þessu atvinnuleysi. Við vorum fjórir öðru hvoru megin við sextugt sem að var sagt upp,“ segir Magnús, sem gagnrýnir harðlega að fyrirtæki í ríkiseigu skuli standa svona að uppsögnum í erfiðu árferði.
Magnús starfaði fyrir varnarliðið í 30 ár og síðast fyrir Keflavíkurflugvöll ohf. eftir sameiningu Flugmálastjórnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Hann segir ávallt hafi verið talað um að réttindin yfirfærðust frá varnarliðinu til Flugmálastjórnar og þaðan til Keflavíkurflugvallar ohf.
Á sínum langa starfsferli hafi hann áunnið sér réttindi sem ekki hafi verið tekið tillit til eftir stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. um áramót.
„Þetta er klúður hjá stjórn Flugamálastjórnar Keflavíkur í yfirtökunni á þessari deild. Lögfræðingur Rafiðnaðarsambandsins er að skoða þessi mál.“
Aðeins þriggja mánaða uppsagnafrestur
Eftir öll þessi ár séu honum tjáð að hann eigi aðeins rétt á þriggja mánaða uppsagnafresti.
Magnús starfaði í tæknideild aðflugs á vellinum og var ásamt félaga sínum sagt upp störfum í átta manna deild.
Með líku lagi hafi verið fækkað í svokallaðri radíódeild á vellinum um helming, eða úr fjórum niður í tvo.
Þá hafi tveimur starfsmönnum af sjö í viðhaldsdeild húseigna verið boðið að hefja störf hjá verktakafyrirtæki Arnbjörns Óskarssonar, sem taki að sér ýmis verkefni á vellinum.
Magnús segir uppgefna ástæðu uppsagnanna þá að staða fyrirtækisins sé slæm.
Bæði hafi umferð um flugvöllinn minnkað og dregið úr tekjunum í samræmi við það og lánabyrði vegna erlendra lána þyngst eftir gengishrun krónunnar.
Einnig hefur verið gripið til uppsagna í öryggisvörslu og hefur Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu, lýst yfir efasemdum um undirskriftalista starfsmanna þess efnis að þeir hafni launaskerðingu sem valkosti til að verja störf.
Kveðst Þórarinn þannig efast um að listinn eigi sér raunverulegt bakland.
Þegar hefur verið fjallað um það mál á vef Morgunblaðsins.