Gagnrýna ákvörðun Einars Kr.

Kristján G. Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Kristján G. Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Ómar

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands, stærsta landssambands verkalýðsfélaga innan Alþýðusambandsins, ályktaði á fundi sínum í dag um hvalveiðar. Í ályktuninni kemur fram hörð gagnrýni á Einar Kr. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og eru vinnubrögð hans við úthlutun veiðiheimilda á hval sögð vera óhæfa.

Á vef Starfsgreinasambandsins segir að ályktunin, sem fer hér á eftir, hafi verið samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

„Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands, haldinn 5. febrúar 2009, leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlinda í þágu atvinnulífsins og verðmætasköpunar fyrir þjóðarbúið. Ábyrgar veiðar byggja á vísindalegu mati, markvissu eftirliti, hagkvæmni og umhverfissjónarmiðum. Í þessu sambandi eru hvalveiðar einnig mikilvægar, en gæta verður þess að þær veiðar séu stundaðar í sátt og í samráði við ferðaþjónustugreinar og hvalaskoðunarfyrirtæki. Ferðaþjónustan er afar þýðingarmikil og vaxandi frumatvinnugrein á Íslandi, sem á í samkeppni við erlendan markað og þarf á jákvæðri ímynd að halda. Fundurinn telur að vel megi samræma sjónarmið beggja greinanna, þannig að sem flestir geti vel við unað.

Engin umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um það hverjir fái að veiða hval, hvenær, hvar og hvernig. Fundurinn fordæmir þess vegna illa ígrunduð vinnubrögð fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Einars Guðfinnssonar, að úthluta völdum einstaklingum hvalveiðileyfum til fimm ára með útgáfu reglugerðar á síðasta starfsdegi sínum.  Slíkt er óhæfa.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert