Gylfi skipar nýja stjórn FME

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur í dag skipað nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins. Verður Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, formaður stjórnarinnar. 

„Það verður haldinn stjórnarfundur sem fyrst og farið yfir þau verkefni sem Fjármálaeftirlitið hefur verið að sinna og hvaða verkefni eru framundan. Eitt það fyrsta sem við munum gera er að auglýsa eftir nýjum forstjóra eftirlitsins,“ segir Gunnar.

Hann segir mörg erfið viðfangsefni framundan. Eins og alþjóð viti hafi staðið styr um Fjármálaeftirlitið. Hann hafi auðvitað velt því vel fyrir sér hvort hann ætti að taka formennskuna að sér. „En auðvitað er ekki hægt að skorast undan ábyrgð þegar maður er beðinn að taka svona þýðingarmikið verkefni að sér,“ segir Gunnar.

Ný stjórn FME er skipuð eftirfarandi einstaklingum:

Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Phd, formaður stjórnar, Kristín Haraldsdóttir, lögfræðingur, LLM., Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands

Kristín hefur frá því árið 2003 starfað sem aðstoðarmaður dómara við EFTA-dómstólinn. Hún er með meistarapróf í lögum frá háskólanum í Lundi, nánar til tekið í evrópurétti. Hún er sem stendur í fæðingarorlofi og hefur látið af störfum fyrir EFTA dómstólinn. En hún mun eftir orlofið hefja störf við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Jón er framkvæmdastjóri skrifstofu bankastjórnar í Seðlabankanum. Þar áður var hann framkvæmdastjóri alþjóðasviðs, en hefur einnig starfa fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sat um tveggja ára skeið í stjórn hans fyrir hönd Norðurlandanna.

Varamenn eru Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður,  Þóra M. Hjaltested, lögfræðingur og Guðrún Ögmundsdóttir, sérfræðingur, tilnefnd af Seðlabanka Íslands.

Óskar útskrifaðist úr lagadeild HÍ árið 1997. Hann starfaði um tíma hjá A&P lögmönnum og síðar lögmannsstofunni Logos. Hann rekur nú eigin lögfræðistofu á Selfossi og hefur gert það frá árinu 2000. Þar að auki er hann aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands.

Þóra er lögfræðingur og hefur undanfarið starfað sem sérfræðingur í viðskiptaráðuneytinu. Hún átti einnig sæti í bráðabirgðastjórn Nýja Glitnis síðastliðið haust.

Guðrún er sérfræðingur á fjármálasviði Seðlabankans. Hún er hagfræðingur að mennt. Þess má einnig geta að hún er dóttir Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra.

Nýja stjórnin er skipuð út skipunartíma fyrri stjórnar, sem sagði af sér fyrir skemmstu. Hún er því skipuð til 31. desember árið 2010.

Gunnar Haraldsson forstöðumaður Hagfræðistofunar
Gunnar Haraldsson forstöðumaður Hagfræðistofunar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert