Indriði verður ráðuneytisstjóri tímabundið

Indriði H. Þorláksson.
Indriði H. Þorláksson.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hefur sett Indriða H. Þorláksson í embætti ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu til 30. apríl nk. Baldur Guðlaugsson hefur fengið leyfi frá störfum ráðuneytisstjóra á sama tímabili.


Indriði H. Þorláksson er fyrrverandi ríkisskattstjóri og var áður skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu. Hann er 69 ára gamall og settist í helgan stein fyrir um það bil ári síðan, þegar hann lét af embætti ríkisskattstjóra.

Í samtali við mbl.is segir Indriði engin önnur áform hafa en að gegna starfinu þennan afmarkaða ráðningartíma. Hann segir að Steingrímur hafi leitað til sín um að taka við starfinu. „Eftir smá umhugsun ákvað ég að taka við því,“ segir hann.

Spurður hvort ráðherrann hafi tilgreint sérstakar ástæður fyrir því að hann vildi Indriða sem ráðuneytisstjóra segir Indriði einfaldlega að með tilliti til fyrri starfa í ráðuneytinu og á fleiri stöðum reikni hann með því að ráðherrann telji hann skár til þess fallinn að sinna starfinu en aðra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert