Inntökupróf slegin af

Nemendur að þreyta samræmd próf á meðan þau voru við …
Nemendur að þreyta samræmd próf á meðan þau voru við lýði mbl.is

Hugmyndir nokkurra framhaldsskóla um inntökupróf vegna afnáms samræmdra prófa í 10. bekk grunnskólanna nú í vor voru slegnar af í menntamálaráðuneytinu.

„Ráðuneytið lagðist gegn þeim. Í nýrri löggjöf um samfellu náms á fyrstu þremur skólastigum íslenska skólans, sem tók gildi í fyrrasumar, eru ákveðnar reglur, meðal annars um það með hvaða skilyrðum nemendur eru teknir inn í framhaldsskóla. Þeir eiga að líta á skólaeinkunnir nemenda þegar þeir koma beint úr grunnskólum. Það er stóra viðmiðunin,“ segir Þórir Ólafsson, sérfræðingur á skrifstofu menntamálaráðuneytisins.

Hann bendir jafnframt á að nú eigi 16 og 17 ára nemendur rétt á námi í framhaldsskóla.

Í stað samræmdra prófa í 10. bekk verða samræmd könnunarpróf í stærðfræði, íslensku og ensku sem eiga að vera í byrjun skólaársins. Framhaldsskólarnir fá ekki niðurstöður úr þeim könnunum, heldur niðurstöður úr vorprófum nemenda.

Þorkell H. Diego, yfirkennari í Verzlunarskóla Íslands, segir að vegna afnáms samræmdu prófanna hafi menn velt upp öllum mögulegum hugmyndum í sambandi við innritun nýrra nemenda, meðal annars inntökuprófi.

„Framkvæmdin er dýr og menn sáu í hendi sér að hún gengi ekki upp fyrir þann fjölda sem við erum með. Afnám samræmdra prófa er ákveðinn þáttur sem við höfum áhyggjur af en við verðum að treysta því að skólarnir fari eftir námskrá og að einkunnin 7 í einum skóla sé sambærileg við einkunnina 7 í öðrum,“ segir Þorkell.

Skólastjórnendur í Verzlunarskólanum hafa þegar ákveðið hvernig valið verður inn í skólann fyrir næsta skólaár, að sögn Þorkels. „Við gerum ráð fyrir að allir taki sama nám hjá okkur á fyrsta ári. Við tökum mið af fjórum skólaeinkunnum, íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku eða öðru Norðurlandamáli þar sem íslenska og stærðfræði hafa tvöfalt vægi. Sumir skólar velja beint inn á brautir og hafa þá önnur viðmið.“

Kristinn Breiðfjörð, skólastjóri Foldaskóla í Grafarvogi og formaður stjórnar Skólastjórafélags Íslands, segir að samræmdu prófin hafi stýrt kennslunni töluvert. „Nú ætti að draga verulega úr því. Það var komin töluverð gagnrýni á samræmdu prófin í því formi sem þau voru. Samræmdu könnunarprófin, sem verða í byrjun skólaárs, eiga að koma að gagni fyrir nemendur og skólann. Það verður þá hægt að bregðast við í samræmi við kunnáttu nemenda.“

Að sögn Kristins verða samræmdu könnunarprófin, sem framvegis eiga að vera í byrjun skólaárs, lögð fyrir nemendur í vor þar sem of skammur tími hafi verið til undirbúnings frá því að nýja löggjöfin tók gildi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert