Ríkislögreglustjóri hefur gefið út jafnréttis- og framkvæmdaáætlun fyrir lögregluna og samkvæmt tilnefningu skipað henni sérstaka jafnréttisnefnd. Með þeirri skipan er tekinn upp nýr háttur í jafnréttismálum innan lögreglunnar þar sem ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á framgangi jafnréttismála en lögreglustjórar bera ábyrgð á framgangi jafnréttisáætlunar, hver hjá sínu embætti.
Ríkislögreglustjóri hefur skipað Sólberg S. Bjarnason aðstoðaryfirlögregluþjón til að vera jafnréttisfulltrúi lögreglunnar. Hann hefur umsjón með jafnréttismálum hjá öllum lögregluembættum og er ætlað að safna upplýsingum um stöðu jafnréttismála, og hvernig þeim er háttað innan lögreglunnar.
Jafnréttisnefnd er jafnréttisfulltrúa lögreglunnar til aðstoðar og ráðgjafar. Nefndinni er einnig ætlað það hlutverk að gera tillögur að jafnréttisstefnu og framkvæmdaáætlun fyrir lögregluna, móta verklagsreglur í jafnréttismálum og annast útgáfu upplýsinga- og leiðbeiningarefnis. Þá mun nefndin starfrækja sérstakt jafnréttis- og áreitnisteymi sem verður lögregluembættunum og aðilum máls til ráðgjafar og aðstoðar.
Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn í gær. Hana skipa: Berglind Eyjólfsdóttir rannsóknarlögreglumaður, fulltrúi Landssambands lögreglumanna, Bjarney Annelsdóttir lögreglufulltrúi hjá Lögregluskóla ríkisins, Erlendur S. Baldursson afbrotafræðingur, fulltrúi Bandalags háskólamanna, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Suðurnesjum, Sigríður Hrefna Jónsdóttir starfsmannastjóri lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og Þórarinn Eyfjörð framkvæmdastjóri SFR-Stéttarfélags í almannaþjónustu.