„Það er ljóst að það er talsvert miklu dýrara að stoppa byggingu Tónlistarhússins og klára það seinna en klára það núna,“ segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, og tekur fram að hún sjái því engan annan kost í stöðunni en að klára húsið með sóma. Stefnt er að því að ræða áframhaldandi byggingu Tónlistarhússins á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun. Segir Katrín ljóst að framkvæmdalokum muni a.m.k. seinka um tvö ár þar sem hægt verði á framkvæmdum, m.a. þar sem engin næturvinna verði lengur unnin.
Katrín bendir á að nú þegar sé verkið hálfnað, en áætlað er að það taki 13 milljarða að klára bygginguna. Segir hún Austurhöfn ehf. hafa lagt fram hugmynd um hvernig spara megi megi á bilinu 400-500 milljónir króna í útfærslu hússins, t.d. með breyttu efnisvali, sem farið verði gaumgæfilega yfir. Spurð hvernig fjármagna eigi þá milljarða sem upp á vantar til þess að hægt verði að ljúka byggingu Tónlistarhússins segir Katrín ljóst að ríki og borg muni ekki taka á sig frekari ábyrgðir vegna hússins og því þurfi að fjármagna bygginguna með lánsfé. Spurð hvort hægt sé að fá lánsfé á viðráðanlegum vöxtum í dag segir Katrín að a.m.k. eitt tilboð sé til skoðunar.