Mælt fyrir frumvörpum um greiðsluaðlögun

Ragna Árnadóttir, lengst til hægri, mælti fyrir sínu fyrsta máli …
Ragna Árnadóttir, lengst til hægri, mælti fyrir sínu fyrsta máli á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Ragna Árnadóttir, nýr dómsmálaráðherra, mælti í dag fyrir sínu fyrsta máli á Alþingi, frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun. Mælt verður fyrir tveimur  þingmannafrumvörpum um sama efni síðar í dag.

Annars vegar mælir Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir frumvarpi um greiðsluaðlögun en um er að ræða frumvarp sem unnið var í dómsmálaráðuneytinu þegar Björn var dómsmálaráðherra. Leggur Björn það fram fyrir hönd sjálfstæðismanna.

Þá mælir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fyrir frumvarpi sem hún hefur lagt fram um greiðsluaðlögun. Allir þingmenn Framsóknarflokksins standa að frumvarpinu.

Greiða þurfti atkvæði um afbrigði frá þingsköpum vegna þess að of skammur tími var liðinn frá því frumvörp dómsmálaráðherra og Björns voru lögð fram á Alþingi. Sjálfstæðismenn sögðust myndu styðja afbrigðin vegna þess að stjórnarfrumvarpið væri nánast eins og frumvarp Björns. 

Frumvörpin fjalla um úrræði fyrir þá sem glíma við verulegan fjárhagsvanda, til þess að forðast gjaldþrotaskipti. Tilgangur stjórnarfrumvarpsins er að hjálpa einstaklingum sem ekki stunda atvinnurekstur, eða hafa hætt rekstri, að endurskipuleggja fjármálin á sama hátt.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Rögnu hver væri munurinn á frumvarpinu, sem hún mælti fyrir, og því frumvarpi sem Björn lagði fram. 

Ragna svaraði að þessi tvö mál væru áþekk og frumvarpsdrögin hefðu upphaflega verið samin af réttarfarsnefnd að frumkvæði Björns sem dómsmálaráðherra. Sagði Ragna, að munurinn á frumvörpunum væri einkum sá, að gildissviðið í stjórnarfrumvarpinu væri víkkað þannig að það nái í afmörkuðum tilfellum til einstaklinga sem stunda atvinnurekstur. Þá sé þá grundvallarmunur, að stjórnarfrumvarpið nái einnig til veðkrafna sem eru með veð í íbúðarhúsnæði hjá lánastofnunum í eigu ríkisins. 

Siv Friðleifsdóttir sagði, að svo virtist sem ræður sjálfstæðismanna um frumvarpið virtust vera keppni um það hver pissaði lengst og hver hefði ljósritað hraðast. Hins vegar væri ljóst, að í þeirri keppni hefðu framsóknarmenn vinninginn því þeirra frumvarp hafi komið fram fyrst á Alþingi. 

Frumvarp dómsmálaráðherra

Frumvarp sjálfstæðismanna

Frumvarp framsóknarmanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert