Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu það til í borgarráði í dag að Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, taki sæti borgarstjóra á fundum borgarstjórnar í fjarveru borgarstjóra, enda sé formaður borgarráðs alla jafna pólitískur staðgengill borgarstjóra.
Ólafi F. Magnússyni, borgarfulltrúi F-listans, líkaði þessi tillaga alls ekki vel og mótmælti henni harkalega á fundi borgarráðs. Sagði hann að með slíkri breytingu væri verið að nota samþykktina um stjórn Reykjavíkurborgar í þágu hagsmunabandalags helmingaskiptaflokkanna, sem sitji í meirihluta borgarstjórnar.
„Nú þegar er það látið viðgangast að minnsta framboðið í borginni eigi tvo fulltrúa í öllum fastanefndum borgarinnar. Ég vil ekki una frekari framsóknarvæðingu í borginni af hálfu Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Ólafur.
Sagði Ólafur að Óskar hafi staðið illa að málum og sýnt óviðunandi framkomu, jafnt í borgarráði og borgarstjórn á kjörtímabilinu. „Ég tel að virðingu borgarstjóraembættisins sé lítill sómi sýndur með því að gera hann að staðgengli borgarstjóra,“ sagði í bókun Ólafs.