Olli Rehn stendur fast á sínu

Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB.
Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB. Reuters

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, hefur ítrekað að hann telji áfram að Ísland yrði kærkomið nýtt aðildarríka bandalagsins, að því er fram kemur í finnska dagblaðinu Helsinki Sanomat.

Þessu ummæli fóru fyrir brjóstið á forseta Evrópuþingsins, hægrimanninum Hans-Gert Pöttering og sagt var frá hér á mbl.is í gær. Í samtali sem birtist í blaðinu Aamulethi sagði Pöttering að tal af þessu tagi gæti torveldað staðfestingu Lissabon-sáttmálans, sérstaklega á Írlandi þar sem kosið verður um hann á ný næsta haust.

Rehn segir að staðfesting sáttmálans sé ekki síður grundvallarmál fyrir framkvæmdastjórnina. Í augum hans er það þó eðlilegt að framkvæmdastjóri stækkunarmála taki þátt í umræðum um það sem hefur verið að gerast á síðasta ári varðandi stækkunarmál.

„Öll Evrópuríki sem mæta  skilyrðunum um lýðræði og löggjöfina og framkvæmir þau í reynd, geta sótt um aðild að ESB. Ísland fellur betur undir þessa skilgreiningu heldur en Balkanlöndin til dæmis,“ sagði Olli Rehn í viðtali í Helsinki Sanomat.

Stækkunarstjórinn bendir á að Ísland fullnægi nú þegar öllum lýðræðislegum skilgreiningum ESB. Það sé einnig aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og að minnsta kosti tveir þriðju af löggjöf ESB sé þar þegar í gildi.

Rehn gerir ráð fyrir að með því að Ísland hefji umsóknarferlið og vilji til að gangast undir skilgreingu aðildar á evrusvæðinu gæti einnig ýtt undir stöðugleika í efnahagsmálum landsins sem nú glími við alvarlegan vanda á því sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka