Sátt hefur náðst í áratuga löngu deilumáli á milli Félags tónskálda og textahöfunda (FTT) og Tónskáldafélags Íslands (TÍ) er snýr að greiðslu höfundarlauna. Sátt hefur náðst um að svokallað punktakerfi verði lagt niður þegar kemur að útvarpsspilun.
Það þýðir að tónlist verður ekki lengur flokkuð eftir tegund, en fram til þessa hafa höfundar klassískra tónverka fengið hærri höfundarréttargreiðslu fyrir hverja mínútu í útvarpi en höfundar dægurlaga. Einnig náðist sátt um fjölgun í fulltrúaráði STEFs en málin verða endanlega afgreidd á aðalfundi sambandsins í maí, að sögn Eiríks Tómassonar frkvstj. STEFs.