Grunnþjónustan verði tryggð

Frá Þórshöfn.
Frá Þórshöfn. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Hreppsnefnd Langanesbyggðar beinir því til nýs heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir því að fjárveitingar til heilsugæslustöðvarinnar á Þórshöfn verði „leiðréttar“ þannig að tryggja megi grunnþjónustustarfsemi á öllu starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga. 

Er vísað til „þeirrar stöðu sem upp er komin í starfsemi heilsugæslustöðvarinnar á Þórshöfn“ í ályktun nefndarinnar um stöðuna.

Þar segir:

„Nú er svo komið að aðeins er gert ráð fyrir hálfri stöðu hjúkrunarfræðings, einni stöðu læknis, ljósmóður í hluta starfi, er einnig sinnir ungbarnaeftirliti, og einni stöðu sjúkraflutningsmanns  við stöðina á Þórshöfn.

Samkvæmt upplýsingum er hreppsnefnd hafa borist til eyrna stendur til að skerða þessa takmörkuðu þjónustu enn frekar þannig að einungis verði starfandi tveir heilbrigðisstarfsmenn við stöðina hverju sinni. 

Til að uppfylla lágmarkskröfur um þjónustu á Þórshöfn og næsta nágrenni þarf að tryggja nægilegt fjármagn til að standa undir heilli stöðu hjúkrunarfræðings í stað hálfrar í dag og að ávalt verði tveir sjúkraflutningamenn á vakt í stað eins í dag.

Á Þórshöfn hefur atvinnulíf verið nokkuð stöðugt á undaförnum árum en heldur eflst síðustu misserin og eru ekki horfur á öðru en að svo verði áfram. 

Niðurstaða ályktunarinnar er því sú að það sé í „hróplegri mótsögn við þróun samfélagsins að skerða einn af grunnþáttum velferðarþjónustunnar“. Því sé „eðlilegt að gripið verði þegar til aðgerða sem miða að því að snúa slíkri óheillaþróun til betri vegar“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert