Karlmaður á áttræðisaldri var í Hæstarétti í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum. Brotin voru trúnaðarbrot, en þau beindust að stúlkum er honum var beint og óbeint treyst fyrir þegar þær voru litlar. Manninum var að auki gert að greiða fórnarlömbum sínum miskabætur, 900 þúsund og 500 þúsund krónur.
Maðurinn braut gegn stjúpbarnabarni sínu, stúlku fæddri árið 1989, með því að kafa á brjóstum hennar og bringu innanklæða í eitt skipti á árunum 1999-2003 Einnig braut hann gegn stúlku fæddri 1982 þegar hún var ellefu ára, káfaði á henni og fór með fingur í kynfæri.
Maðurinn fór fram á það fyrir Hæstarétti að geðlæknar yrðu dómkvaddir og fengnir til að meta geðheilbrigði sitt. Í matsgerð sem lögð var fyrir Hæstaréttar segir að að engin merki séu um geðveiki, andlegan vanþroska eða hrörnun, rænuskerðingu eða annað samsvarandi ástand hjá manninum. Geðlæknarnir töldu ekki neitt geta komið í veg fyrir að refsing beri árangur. Líklegt megi þá telja að maðurinn geti verið hættulegur börnum, sérstaklega ókynþroska stúlkum, en barnagirnd sé almennt ekki álitin „vel meðhöndlanlegt ástand.“