Einar Kr. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, tók undir með núverandi sjávarútvegsráðherra, um að mistök hefðu verið gerð þegar hvalveiðibanninu var ekki mótmælt af íslenskum stjórnvöldum á sínum tíma.
Minnti hann á að ákvörðun hans um að leyfa hvalveiðar nk. fimm ár byggði á ráðgjöf Hafró og því væri stigið afar varlega til jarðar. Rifjaði hann upp að í fráfarandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi verið einhugur um það að ákvörðun um hvalveiðar væri á stjórnsýslulegu forræði sjávarútvegsráðherra og að sú ákvörðun þyrfti ekki að fara fyrir ríkisstjórnarfund. Á grundvelli þessa vísaði hann því á bug að ákvörðun væri tortryggileg í ljósti þess að hún hafi verið tekin þegar ljóst var að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar væri að fara frá.
Sagðist hann byggja ákvörðun sína á fyrri samþykkt ríkisstjórnarinnar, auk þess sem ljóst væri að meirihluti landsmanna væri fylgjandi hvalveiðum og einhugur væri um málið í sjávarútveginum. Minnti hann á að ferðamönnum hefði fjölgað margfalt á síðustu árum þrátt fyrir hvalveiðar. Sagðist hann hafa verið gagnrýndur harðlega árið 2006, m.a. af útrásarvíkingum sem töldu að hvalveiðar myndu hafa neikvæð áhrif á ímynd landsins.
Einar vék að úthlutun nýjustu hvalveiðileyfanna og sagði ekki um neinn lokaðan klúbb að ræða. „Þetta var ekki ákvörðun sem var tekin í neinu bráðræði, heldur tekin eftir mikla umræðu þar sem öll sjónarmið hefðu komið fram,“ sagði Einar og sagði eðlilegt að nýta hvalastofninn eins og aðrar auðlindir í hafinu.