„Ég er orðinn vanur því að vera umboðsmaður andskotans á svæðinu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegsráðherra, á opnum fundi um hvalveiðar sem fram fer á Akranesi nú í kvöld. Sagðist hann þeirrar skoðunar að ákveðin mistök hafi verið gerð þegar hvalveiðibanninu var ekki mótmælt af hálfu íslenskra stjórnvalda á sínum tíma líkt og Norðmenn gerðu.
Steingrímur sagðist ekki geta gefið ákvörðun fráfarandi sjávarútvegsráðherra háa stjórnsýslueinkunn. Sagði hann tilfinnanlega hafa vantað nægileg gögn um málið í ráðuneytinu sem styddi ákvörðun ráðherra. Því væri fullkomlega eðlileg stjórnsýsla að fara yfir öll gögn málsins.
Horfa þarf til annarra atvinnugreina líka
Steingrímur sagðist vel skilja þau sjónarmið að gott væri að hefja hvalveiðar nú á tímum þegar atvinnuleysi væri mikið. Hins vegar yrði að vega og meta málin í stærra samhengi, t.d. að skoða hvaða áhrif hvalveiðar geti haft á aðrar starfsgreinar. Benti hann á að ferðaþjónustan væri ein stærsta atvinnugreinin hérlendis, því hún skili um 20% af tekjum þjóðarbússins. Sagði hann mikilvægt að atvinnugreinar gætu starfað hlið við hlið í góðri sátt. Sagði hann rétt að ferðaþjónustan hefði vaxið þó hvalveiðar í atvinnuskyni hefðu verið teknar upp fyrir nokkrum árum. Því megi hins vegar ekki gleyma að ferðaþjónustan hefði vaxið alls staðar í heiminum, hins vegar væru breyttir tímar og markaðurinn kvikur. Þannig gæti slæmt umtal haft miklu meiri og afdrifaríkar afleiðingar.
Mun hlusta á öll sjónarmið
„Ég tel því ekki neitt annað en eðlilegt að nýr sjávarútvegsráðherra og ný ríkisstjórn gæfi sér tóm til þess að fara yfir þessa ákvörðun stjórnsýslulega. Því stjórnsýslan gerir ekki ráð fyrir því að ráðherra í starfsstjórn taki svona afdrifaríka pólitíska ákvörðun,“ sagði Steingrímur og tók fram að hann væri að láta vinna óháða lögfræðilega álitsgerð um málið. Ítrekaði hann að hann myndi hlusta á sjónarmið allra í málinu. Sagðist hann vilja eyða óvissunni sem fyrst, því hún væri vond.
„Mínar persónulegar skoðanir í þessu máli eru óháðar þessu máli,“ sagði Steingrímur, og vísaði til næstum 30 ára gamalla mynda sem til væru af honum við hvalveiðar sem dreift hafi verið að undanförnu. Benti hann á skipið sem hann hefði siglt með fyrir 30 árum væri nú notað til hvalaskoðunar norður á Húsavík.