Neytendasamtökin krefjast þess að vöruverð lækki í samræmi við styrkingu íslensku krónunnar. Allt annað sé óásættanlegt fyrir neytendur.
Neytendasamtökin fjalla um styrkingu krónunnar á vefsíðu sinni og benda á að frá 21. janúar sl. til dagsins í dag hafi helstu erlendu gjaldmiðlar lækkað í verði um 6,5-13,9% gagnvart íslensku krónunni. Mest var lækkunin á tímabilinu 21. janúar til 29. janúar.
Samtökin segja ennfremur að innflytjendur hafi hækkað verð á vörum sínum reglubundið miðað við veikingu íslensku krónunnar. Einnig hafi innlendir framleiðendur réttlætt hækkanir með veikingu krónunnar sem hafi áhrif á hráefnisverð.
Neytendasamtökin hafa ítrekað krafist þess að innflytjendur og framleiðendur hafi samræmi í vinnubrögðum sínum. Því krefjast Neytendasamtökin þess að vöruverð lækki í samræmi við styrkingu íslensku krónunnar.