Aldrei tekist að reka almennilegan seðlabanka

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í dag um seðlabankafrumvarp ríkisstjórnarinnar, að Íslendingum hefði aldrei tekist að reka almennilegan seðlabanka og hafa gjaldgenga mynt með stöðugu verðlagi. Því væri Seðlabanki Íslands ekki nýtt vandamál heldur vandamál sem Íslendingar hefðu búið við áratugum saman.

Þetta var jómfrúrræða Gylfa á Alþingi.

Gylfi sagði, að ekki væri hægt að skilja þau vandamál, sem nú væri við að gíma nema hafa í huga forsögu málsins síðustu áratugi og öll saga eftirstríðsáranna í gengis- og peningamálum Íslendinga væri ein samfelld hrakfallasaga.

Hann sagði,  að því væri ekki þannig varið, að inn í bankann hafi ráðist óhæft fólk og að það sé skýringin á þessu. Það væri frekar þannig, að margir hefðu verið í því hlutverki, að framkvæma misvitrar ákvarðanir stjórnmálamanna, ákvarðanir, sem hugsanlega voru teknar í Alþingishúsinu eða við ríkisstjórnarborðið.

„Það hefur aldrei gengið verr að reka þennan banka en undanfarin ár," sagði Gylfi. Seðlabankinn hefði verið hrakinn frá gengismarkmiði sínu 2001 og þá skipt yfir í verðbólgumarkmið, sem aldrei hefði almennilega náðst.

Þá hefði bankinn átt í verulegum vandræðum með að uppfylla önnur hlutverk sín, eins og að byggja upp trúverðugan gjaldeyrisforða og starfa sem bakhjarl viðskiptabankakerfisins. Ekki væri hægt að komast að annari niðurstöðu en að það síðastnefnda hafi skipt verulegu máli við hrun viðskiptabankakerfisins.

Gylfi sagði, að Seðlabankinn, hvort sem það sé stjórnendum hans, umgjörð eða einstökum starfsmönnum að kenna, hafi mistekist hrapalega í því sem væri eitt af hans allra mikilvægustu verkefnum: að viðhalda fjármálastöðugleika. Því standi bankinn eftir rúinn trausti og það gerði hann nánast óstarfhæfan því án trausts ætti bankinn sér ekki viðreisnar von og enga möguleika á að ná markmiðum sínum.

Þá sagði Gylfi, að það hvarflaði ekki að neinum að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar væri eingöngu Seðlabankanum að kenna. Hér á landi hafi verið andrúmsloft sem að hluta til byggðist á því, að hefta ekki bankana. Þennan tíðaranda hefðu fjölmiðlar endurspeglað  og magnað upp. „Kannski má segja að þjóðfélagið í heild hafi brugðist þótt ábyrgð sumra sé meiri en annarra. Þegar svo er komið er ekki hægt að segja: Þetta er leiðinlegt, við vonum að það gangi betur næst og við ætlum að halda áfram með sama kerfi og sama fólk. Hvers virði verða slíkar yfirlýsingar í augum erlendra viðskiptavina bankanna?" sagði Gylfi og bætti við, að ef enginn trúi því að stjórntækin virki ekki þá virki þau ekki.

Gylfi sagðist ekki ætla að halda því fram að það að öll vandamál leysist með því að breyta umgjörð Seðlabankans og setja þar nýja menn við stjórnvölinn. En ekki væri hægt að hefja þessa vegferð með óbeytt skipulag.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert