Aldrei tekist að reka almennilegan seðlabanka

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

Gylfi Magnús­son, viðskiptaráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í dag um seðlabankafrum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar, að Íslend­ing­um hefði aldrei tek­ist að reka al­menni­leg­an seðlabanka og hafa gjald­genga mynt með stöðugu verðlagi. Því væri Seðlabanki Íslands ekki nýtt vanda­mál held­ur vanda­mál sem Íslend­ing­ar hefðu búið við ára­tug­um sam­an.

Þetta var jóm­frúr­ræða Gylfa á Alþingi.

Gylfi sagði, að ekki væri hægt að skilja þau vanda­mál, sem nú væri við að gíma nema hafa í huga for­sögu máls­ins síðustu ára­tugi og öll saga eft­ir­stríðsár­anna í geng­is- og pen­inga­mál­um Íslend­inga væri ein sam­felld hrak­falla­saga.

Hann sagði,  að því væri ekki þannig varið, að inn í bank­ann hafi ráðist óhæft fólk og að það sé skýr­ing­in á þessu. Það væri frek­ar þannig, að marg­ir hefðu verið í því hlut­verki, að fram­kvæma mis­vitr­ar ákv­arðanir stjórn­mála­manna, ákv­arðanir, sem hugs­an­lega voru tekn­ar í Alþing­is­hús­inu eða við rík­is­stjórn­ar­borðið.

„Það hef­ur aldrei gengið verr að reka þenn­an banka en und­an­far­in ár," sagði Gylfi. Seðlabank­inn hefði verið hrak­inn frá geng­is­mark­miði sínu 2001 og þá skipt yfir í verðbólgu­mark­mið, sem aldrei hefði al­menni­lega náðst.

Þá hefði bank­inn átt í veru­leg­um vand­ræðum með að upp­fylla önn­ur hlut­verk sín, eins og að byggja upp trú­verðugan gjald­eyr­is­forða og starfa sem bak­hjarl viðskipta­banka­kerf­is­ins. Ekki væri hægt að kom­ast að ann­ari niður­stöðu en að það síðast­nefnda hafi skipt veru­legu máli við hrun viðskipta­banka­kerf­is­ins.

Gylfi sagði, að Seðlabank­inn, hvort sem það sé stjórn­end­um hans, um­gjörð eða ein­stök­um starfs­mönn­um að kenna, hafi mistek­ist hrap­alega í því sem væri eitt af hans allra mik­il­væg­ustu verk­efn­um: að viðhalda fjár­mála­stöðug­leika. Því standi bank­inn eft­ir rú­inn trausti og það gerði hann nán­ast óstarf­hæf­an því án trausts ætti bank­inn sér ekki viðreisn­ar von og enga mögu­leika á að ná mark­miðum sín­um.

Þá sagði Gylfi, að það hvarflaði ekki að nein­um að staðan í efna­hags­mál­um þjóðar­inn­ar væri ein­göngu Seðlabank­an­um að kenna. Hér á landi hafi verið and­rúms­loft sem að hluta til byggðist á því, að hefta ekki bank­ana. Þenn­an tíðaranda hefðu fjöl­miðlar end­ur­speglað  og magnað upp. „Kannski má segja að þjóðfé­lagið í heild hafi brugðist þótt ábyrgð sumra sé meiri en annarra. Þegar svo er komið er ekki hægt að segja: Þetta er leiðin­legt, við von­um að það gangi bet­ur næst og við ætl­um að halda áfram með sama kerfi og sama fólk. Hvers virði verða slík­ar yf­ir­lýs­ing­ar í aug­um er­lendra viðskipta­vina bank­anna?" sagði Gylfi og bætti við, að ef eng­inn trúi því að stjórn­tæk­in virki ekki þá virki þau ekki.

Gylfi sagðist ekki ætla að halda því fram að það að öll vanda­mál leys­ist með því að breyta um­gjörð Seðlabank­ans og setja þar nýja menn við stjórn­völ­inn. En ekki væri hægt að hefja þessa veg­ferð með óbeytt skipu­lag.  

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert