Enex skipt upp

Frá uppbyggingu hitaveitna í Kína
Frá uppbyggingu hitaveitna í Kína

Samkomulag hefur tekist milli eigenda Enex um uppskiptingu félagsins. Uppskiptingin hefur verið staðfest á hluthafafundi í félaginu og af stjórnum stærstu eigendanna, Reykjavik Energy Invest, REI, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur og Geysis Green Energy, GGE. Enex hefur verið í eigu GGE að 70% og REI að 26,5%. Þá hefur nokkur fjöldi aðila átt smærri hlut í Enex.
 
Með samkomulaginu eykur GGE hlut sinn í félaginu Enex Kína en það vinnur að uppbyggingu hitaveitna í Kína. Geysir er nú 75% hluthafi í Enex Kína og REI 25%. Þá yfirtekur GGE að fullu verkefni Enex í Þýskalandi og verður þannig leiðandi aðili í þróun jarðvarmaverkefna í Þýskalandi í gegnum verkefnafélag Enex þar í landi og dótturfélag sitt Exorku.
 
REI yfirtekur eignarhlut Enex í Iceland America Energy, sem unnið hefur að þróun verkefna á sviði jarðhita, fyrst og fremst í Kaliforníu. GGE mun áfram starfa af krafti í Bandaríkjunum þar sem félagið er leiðandi fjárfestir í tveim öðrum jarðhitafélögum.
 
Auk ofangreindra verkefna Enex, hafa REI og GGE unnið saman að verkefnum á Filippseyjum í félaginu Envent. Með samkomulaginu mun GGE eignast meirihluta í því félagi (80%) og tekur jafnframt við stjórn þess.
 
Ásgeir Margeirsson forstjóri GGE fagnar samkomulaginu og segir niðurstöðuna falla vel að þeim áherslum sem félagið hefur sett sér um virka þátttöku í vel skilgreindum verkefnum.

„Við viljum einbeita okkur að verkefnum þar sem við höfum leiðandi hlutverki að gegna líkt og við erum að gera með verkefnunum í Kína og á Filippseyjum. Um leið hverfum við frá öðrum sem ekki falla eins vel að starfsemi félagsins. Jafnframt gefur samkomulagið okkur tækifæri til hagræðingar. Þannig sjáum við mikla samlegð með jarðvarmaverkefnum Enex og Exorku í Þýskalandi. Mestu skiptir að taka forystu þar sem hennar er þörf,“ segir Ásgeir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert