Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir ljóst að þeir sem fari með fjármuni sína til einhverra aflandseyja geri það í ákveðnum tilgangi. Það geti verið lögleg skattaráðstöfun en í öðrum tilvikum sé tilgangurinn leynd af einhverju tagi. Leynd um eignarhald, leynd um skatta eða annað.
Lesandi Morgunblaðsins varpaði fram þeirri hugmynd hvort ekki væri hægt að setja það skilyrði fyrir sanngjörnum samningum um ábyrgðir Íslendinga að bresk yfirvöld tryggðu íslenskum rannsakendum aðgang að meintum bankareikningum Íslendinga á Bresku Jómfrúreyjum, Ermarsundseyjunum og víðar. Þess má geta að til eyjunnar Tortola í Bresku Jómfrúreyjum má rekja býsna marga eignaþræði frá Íslandi.
Skúli Eggert sagði að Bretar hefðu mjög takmarkaða lögsögu að þessu leyti á nefndum eyjum. Bresku Jómfrúreyjar hefðu verið talsvert notaðar á tímabili og fyrir nokkrum árum voru Ermarsundseyjarnar meira notaðar en nú í þessum tilgangi. OECD gerði samninga við ýmsar skattavinjar um skipti á upplýsingum og sagði Skúli að í kjölfar þess hefðu margir fært sig annað.