Seðlabankinn hefur birt bréfaskriftir sem gengu á milli hans og Fjármálaeftirlitsins á síðasta ári, annars vegar bréf Davíðs Oddssonar og Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra til FME, dagsett 2. apríl og svar FME við því erindi, dagsett 7. ágúst. Bréfið varðaði hugsanlega óeðlilega og ólöglega hegðun Kaupþings á gjaldeyrismarkaði og skuldabréfaútgáfu Existu, aðaleiganda bankans. Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins kemur fram að rannsókn þess máls sé lokið og að hún hafi ekki leitt í ljós brot á þeim lögum sem FME hefur eftirlit með.
Í minnisblaði frá Seðlabanka Íslands, sem Morgunblaðið hefur einnig undir höndum, kemur fram að þessar upplýsingar hafi ekki verið birtar fyrr þar sem Fjármálaeftirlitið hafi haft efasemdir um að rétt sé að birta bréfaskiptin vegna upplýsinga um nafngreinda aðila og fjárhæðir.
„Seðlabankinn telur að vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur í þjóðfélaginu og eftir hrun bankastofnana hafi aðstæður allar breyst svo að ekki séu efni til að leggjast gegn birtingu bréfanna,“ segir í minnisblaðinu.
Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins, kynnir Jónas Fr. Jónsson framkvæmdastjóri niðurstöðu rannsóknar stofnunarinnar á þeim atriðum sem Seðlabankinn viðraði í fyrra bréfinu. Áhyggjur Seðlabankans voru þær að Kaupþing banki og Exista hefðu nýtt stöðu sína á gjaldeyrismarkaði til að stuðla að og hagnast á gengislækkun íslensku krónunnar á óeðlilegan hátt.
Annars vegar bað Seðlabankinn FME um að rannsaka kaup Kaupþings á tveimur milljörðum evra á innlendum gjaldeyrismarkaði á tímabilinu frá lokum nóvembermánaðar 2007 til loka mars 2008. Hins vegar að Exista hefði gefið út víkjandi 20 milljarða króna skuldabréf, sem hefði óþekktan eiganda. Einnig að í uppgjöri Exista fyrir 2007 hafi verið færður 30 milljarða króna hagnaður sem engar skýringar hafi verið gefnar á.
Í svari Fjármálaeftirlitsins kemur fram að það hafi aflað upplýsinga um 50 stærstu viðskiptavini Kaupþings í evruviðskiptum 1. desember 2007 til 31. mars 2008. Þar á meðal hafi verið Exista og Exista Trading hf. Fjármálaeftirlitið telur að ekki hafi komið fram vísbendingar um óeðlileg viðskipti í þeim gögnum sem aflað var.
Þá kemur fram í svari FME að Kaupþing hafi verið nettókaupandi að:
Einnig segir í bréfinu að Glitnir banki hafi keypt gjaldeyri í nóvember 2007, mars og apríl 2008 sem nemur um 30 milljörðum króna í nóvember og mars, en 40 milljörðum í apríl 2008. Þá er Landsbankinn þar sagður hafa keypt fyrir um 20 milljarða króna í febrúar 2008.
Í svarbréfinu kemur fram að minni umsvif Glitnis og Landsbankans, heldur en Kaupþings, í gjaldeyrisviðskiptunum hafi ekki verið óeðlileg með tilliti til stærðarmunar á bönkunum og hlutfalli á erlendri starfsemi. Kaupþing var stærstur og með stærstan hluta sinnar starfsemi erlendis.
Um hið víkjandi skuldabréf Exista segir í svarbréfi FME að Kaupþing hafi verið umsjónaraðili útgáfunnar og upphaflegur kröfuhafi. Kaupþing hafi, þegar bréfið er sent 7. ágúst, hug á því að selja það á markaði, en það hafi ekki verið hægt vegna markaðsaðstæðna. Bréfið sé því enn í eigu Kaupþings.
Þá segir að ekki hafi verið nægilegur rökstuðningur fyrir fullyrðingunni um 30 milljarða króna óútskýrðan hagnað Exista vegna varna, til að unnt væri að afla frekari upplýsinga þar að lútandi. Í niðurlagi bréfsins segir að ekki hafi komið fram vísbendingar um brot á þeirri löggjöf sem Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með og að rannsókn málsins sé lokið.