Kaupþing hefur ákveðið að veita lántakendum íbúðalána tímabundin afslátt af uppgreiðslugjaldi. Þá hefur bankinn einnig ákveðið að tímabundið verði einstaklingum heimilt að yfirtaka íbúðalán Kaupþings við fasteignakaup á gildandi vöxtum lánsins.
Í tilkynningu bankans segir að í ljósi erfiðra aðstæðna á fasteignamarkaði hafi bankinn ákveðið að veita lántakendum íbúðalána tímabundið 50% afslátt af uppgreiðslugjaldi þegar þeir greiða upp lán sín eða greiða inn á þau yfir 1 milljón króna.
Einnig hefur verið ákveðið að tímabundið verði einstaklingum heimilt að yfirtaka íbúðalán Kaupþings við fasteignakaup á gildandi vöxtum lánsins. Til þess að viðskiptavinur bankans njóti vaxtaafsláttar, þarf hann að vera félagi í Vexti, vildarþjónustu Kaupþings. Lánið verður að vera innan settra veðsetningarmarka og nýr greiðandi þarf að standast greiðslumat bankans.
Vextir nýrra íbúðalána Kaupþings eru nú 6,65% en 5,90% til þeirra sem njóta vaxtaafsláttar. Mörg af lánum bankans bera 4,90% vexti en 4,15% til þeirra sem njóta vaxtaafsláttar.
Fram til þessa hefur ekki verið heimilt að yfirtaka íbúðalán hjá Kaupþingi á upphaflegum kjörum heldur hafa yfirtekin lán verið færð á gildandi vaxtakjör við undirritun kaupsamnings. Breytingarnar munu að mati Kaupþings liðka fyrir fasteignaviðskiptum og nýtast bæði kaupendum og seljendum.