Borgarráð samþykkti í gær að hækka grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu um 16,35% frá 1. janúar 2009. Þetta er í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs milli ára og leiðbeiningar félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
Framfærsla til einstaklinga hækkar samkvæmt þessu hvern mánuð úr 99.329 krónum í 115.567 krónur og framfærsla til hjóna og fólks í skráðri sambúð úr 158.926 krónum í 184.907.
Vegna óvissu um þróun útgjalda til fjárhagsaðstoðar á næsta ári er lagt til að liðurinn fjárhagsaðstoð verði bundinn liður.
Þá hækka heimildagreiðslur vegna barna um 16,35%. Að því gefnu að atvinnuleysi verði 7% á árinu, aukast útgjöld borgarinnar um 276 milljónir vegna þessa. Gert hefur verið ráð fyrir þessum viðbótarútgjöldum í fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2009.