ÍE varpar ljósi á krabbamein

Íslensk erfðagreining
Íslensk erfðagreining mbl.is/Jim Smart

Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu (deCODE Genetics) tilkynntu í dag að þeir hafi uppgötvað tvo breytileika í erfðamengi mannsins, sem ríflega fimmfalda líkurnar á því að fólk fái skjaldkirtilskrabbamein. Þessir breytileikar fundust, samkvæmt því sem segir í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu, með greiningu á genamengjum meira en 40.000 manns á Íslandi, í Bandaríkjunum og á Spáni. Um það bil fjögur prósent fólks af evrópskum uppruna eru með báða þessa breytileika, sem setur þann hóp í 5,7 sinnum meiri hættu á því að fá skjaldkirtilskrabbamein heldur en aðra. Þeir eru sagðir stuðla að 57% allra tilfella af þessum sjúkdómi.

„Þetta er mikilvæg uppgötvun með mjög skýra læknisfræðilega nytsemi. Skjaldkirtilskrabbamein er algengasta tegund innkirtlakrabbameins og um það bil eitt prósent almennings fær það á einhverjum tímapunkti í lífi sínu,“ er haft eftir Kára Stefánssyni, forstjóra ÍE, í tilkynningunni. „En ef það uppgötvast nógu snemma er það almennt læknanlegur sjúkdómur. Leit að hinum áhættuaukandi breytileikum gætu þess vegna verið ný leið til þess að bera kennsl á þá sem eru í áhættuhópi, svo hægt sé að hafa nánara eftirlit með því fólki með áherslu á að minnka aðra áhættuþætti og að bregðast snemma við ef krabbamein uppgötvast.“

Kári segir ennfremur að verið sé að skoða möguleikana á því að búa til greiningarpróf út frá þessari nýju uppgötvun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert