Launin hækkuðu og hækkuðu

Laun starfsmanna Glitnis, Landsbankans og Kaupþings hækkuðu um helming á milli áranna 2005 og 2007. Bankarnir greiddu að meðaltali ríflega átta milljónir króna á hvern starfsmann árið 2005 en rétt rúmar 12,3 milljónir árið 2007. Launagreiðslur bankanna nærri tvöfölduðust á þessum tveimur árum úr 24,3 milljörðum í 47,3 milljarða króna. Starfsmönnum þeirra fjölgaði um 825 á þessum tíma, úr 3.013 í 3.838.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóns Magnússonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, í gær.

Athygli vekur að bankarnir þrír greiddu mjög misjöfn laun. Þannig munaði ríflega fjórum milljörðum á launagreiðslum Glitnis og Kaupþings en starfsmenn Glitnis voru einungis 163 fleiri. Glitnir borgaði betur. Frá árinu 2002 til ársins 2008 hækkaði meðaltal greiddra launa innan bankanna þriggja um 148 prósent.

Skatturinn tífaldaðist

Skatttekjur og gjöld sem ríkið lagði á viðskiptabankana þrjá tífölduðust á þeim sex árum sem þeir voru í einkaeigu. Upphæðin nam tæpum 1,6 milljörðum árið 2002, en rúmum 15,6 milljörðum króna árið 2008.

Tekið skal fram að í fjárhæðum vegna ársins 2008 voru tveir bankar með áætlaða skattstofna og ekki búið að úrskurða í málum þeirra. Árið á undan námu skattarnir tæpum 12,9 milljörðum króna.

Mikið stökk var á skatttekjum bankanna milli áranna 2005 og 2006. Árið 2005 voru lagðir tæplega fimm milljarðar á bankana en tæplega 12,4 milljarðar árið á eftir.

Einar Guðbjartsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík, bendir á misræmið í spurningu Jóns og svari fjármálaráðherra. Jón spurði hversu mikið bankarnir greiddu en fjármálaráðherra svarar hve mikið lagt var á bankana.

„Það er ekki skýrt í svarinu hvort bankarnir áttu skattalegan frádrátt eins og t.d. yfirfæranlegt tap.“

Jón Magnússon er vonsvikinn að hafa ekki fengið sundurliðaðar tölur um skattgreiðslur bankanna. „Ég hlýt einnig að velta því fyrir mér hvaða þýðingu það hefur árið 2009 að nærri fjögur þúsund starfsmenn hafi unnið í bönkunum og hvernig það er fyrir skattgreiðendur að reka stofnanir þar sem hvorki er lánað né nokkur erlend starfsemi er fyrir hendi.“

Jón óskaði eftir svörunum því hann vildi vita umfang bankakerfisins og ávinninginn af því. Kostnaðurinn við bankakerfið sé í kastljósinu en lítið sé rætt um ávinninginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert