Lögðu áherslu á sterk tengsl

Fjármálaráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon og Kristin Halvorsen á fundi sínum …
Fjármálaráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon og Kristin Halvorsen á fundi sínum í Þjóðmenningarhúsinu. Morgunblaðið/ Golli

„Þetta var góður og gagnlegur fundur,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á blaðamannafundi fjármálaráðherra Noregs og Íslands sem haldinn var  í Þjóðmenningarhúsinu nú síðdegis. Lagði hann áherslu á hin góðu tengsl sem verið hafa milli Íslands og Noregs í áranna rás.

„Það er langt síðan þessi fundur var áformaður,“ sagði Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, og rifjaði upp að tilefni þess að hún er á landinu einmitt núna sé vegna þess að henni hafi verið boðið að vera gestur á tíu ára afmælishátíð Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs sem fram fer í kvöld.

Halvorsen minnti á fundinum á að Norðmenn hefðu fylgst náið með stöðu máli á Íslandi. Lagði hún áherslu á sterk tengsl landanna tveggja og að Norðmenn teldu sig verða að standa þétt upp við bakið á Íslendingum í þeirri viðkvæmu stöðu sem Íslendingar væru í kjölfar fjármálakreppunnar. Lagði hún þó áherslu á að ekki væri til nein auðveld lausn út úr vandanum og að málum yrði ekki kippt snögglega í liðinn.

Ræddu hugsanlegt myntsamstarf

Í máli ráðherranna tveggja kom fram að þeir hefðu rætt hugsanlegt myntsamstarf landanna tveggja. Halvorsen var í framhaldinu spurð hversu alvarleg umræðan um hugsanlegt myntsamstarf væri.  Sagðist hún vel skilja að Íslendingar hefðu áhuga á að taka upp stöðugri gjaldmiðil.

Halvorsen benti á þá þrjá möguleika sem væru í stöðunni fyrir Íslendinga á núverandi tímapunkti, þ.e. að Íslendingar héldu íslensku myntinni, tækju upp myntsamstarf eða skiptu um mynt. Lagði hún þó áherslu á að ákvörðun um myntina þyrfti að taka  í góðri sátt við þjóðina.

 „En ég hef fullan skilning á því að íslensk stjórnvöld hafi áhuga á myntsamstarfi við Noreg og skoði það sem einn möguleika, en vissulega eru aðrir möguleikar í stöðunni,“ sagði Halvorsen.

Minnti hún á að á sama tíma og norska krónan væri viðkvæm fyrir sveiflum í olíuverðum þá væri íslenska krónan viðkvæm fyrir sveiflum í verðlagningu fiskafurða. Þannig hefðu ólíkir hlutir áhrif á gjaldmiðlana tvo.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert