Lifandi, grænn miðbær þar sem framsækin byggingarlist og hlýlegt umhverfi er í aðalatriði er útgangspunktur í tillögu um nýjan miðbæ í Mosfellsbæ.
„Þarna myndast svæði fyrir nauðsynlega verslun og þjónustu í þeirri stærðargráðu sem bæjarfélagið þarfnast, ásamt tveimur stórum menningarstofnunum. Hvort tveggja mun vafalítið gæða miðbæinn lífi og verða vonandi til þess að hér verði sá græni, lifandi miðbær sem við Mosfellingar höfum þurft á að halda,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í samtali við bæjarblaðið Mosfelling í dag.
Karl Tómasson forseti bæjarstjórnar tekur í sama streng og segist bjartsýnn og þrátt fyrir efnahagsástandið geti nýtt miðbæjarskipulag orðið að veruleika á næstu árum.
“Mikilvægt er að nota tímann nú til að vinna undirbúningsvinnu og ljúka við deiluskipulagið,” segir Karl.
Mosfellsbær stendur fyrir kynningarfundi miðvikudaginn 11. febrúar. Fundurinn fer fram í Listasal Mosfellsbæjar og hefst kl. 17.