Olían útilokar ekki samstarf

Steingrímur J. Sigfússon og Kristin Halvorsen í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Steingrímur J. Sigfússon og Kristin Halvorsen í Þjóðmenningarhúsinu í dag. mbl.is/Golli

Sagt er frá fundi Kristínar Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra Íslands, á norska fréttavefnum e24.no. Þar er haft eftir Halvorsen að engin formleg tillaga um gjaldmiðilssamstarf hafi verið borin upp og að hún sé ekki heldur handan við hornið. Norsk stjórnvöld taki á því máli þegar og ef slík tillaga verði borin upp.

„Þegar aðstæðurnar á Íslandi eru orðnar jafndramatískar og raun ber vitni, er eðlilegt að menn fari yfir það hvaða möguleika þeir hafi. Einn möguleikinn er gjaldmiðilssamstarf við Noreg, en ég hef rætt um það við fjármálaráðherra Íslands,“ segir Halvorsen.

Í frétt e24.no kemur fram að norska ríkisstjórnin hafi ekki rætt þennan möguleika innan sinna vébanda. Samt bendir Halvorsen á hinn olíutengda efnahag Noregs, sem hún segir mæla gegn myntsambandi þótt hann útiloki það ekki. Norskur efnahagur er mjög háður olíuverði, en það gæti strítt gegn hagsmunum Íslendinga, þar sem hækkun olíuverðs yrði frekar til þess að veikja stöðu íslensks efnahags, og gengi íslensku krónunnar á meðan hún er enn til. Þar gætu því tekist á norskir olíuhagsmunir og íslenskir útgerðarhagsmunir innan myntsambandsins.

Hún segir að stór munur sé á hagkerfum landanna og að þessi munur geti leitt til þess að með réttu eigi að hafa vexti háa í Noregi þegar olíuverð sé hátt, en að á sama tíma geti verið rétt að hafa lága vexti á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka