Fréttaskýring: Styrking krónunnar getur komið sér illa

mbl.is

Eignir íslensku lífeyrissjóðanna erlendis hafa rýrnað umtalsvert á síðustu mánuðum vegna verðfalls á eignum á erlendum mörkuðum. Mikil verðlækkun hefur einkennt hlutabréfamarkaði sé horft til undanfarinna fjögurra mánaða. Á móti hefur komið að gengi krónunnar hefur verið veikt gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Þetta hefur dregið úr rýrnun á eignum í krónum talið.

Fari svo að markmið efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að styrkja krónuna gangi eftir, geta lífeyrissjóðirnir orðið fyrir umtalsverðu höggi. Tryggvi Tryggvason, forstöðumaður eignastýringar Gildis lífeyrissjóðs, segir það koma sér illa fyrir lífeyrissjóðina að geta ekki dregið úr verðmætarýrnun með gjaldmiðlaskiptasamningum. „Eftir bankahrunið í október hefur ekki verið mögulegt fyrir okkur að verjast sveiflum á krónunni með framvirkjum gjaldeyrisviðskiptum. Markaðurinn fyrir þess háttar viðskipti er einfaldlega ekki til lengur. Þetta eykur auðvitað áhættuna fyrir lífeyrissjóðina,“ segir Tryggvi.

Mikil óvissa framundan

Í byrjun desember í fyrra námu eignir lífeyrissjóðanna í erlendum verðbréfum rúmlega 537 milljörðum króna. Líklegt er að þessi staða hafi versnað umtalsvert á undanförnum mánuðum í ljósi þeirra hremminga sem einkennt hafa alþjóðlega fjármálamarkaði. Sé mið tekið af stöðu sjóðanna í árslok 2007, í samanburði við stöðuna í byrjun desember, þá hefur hlutfall erlendra eigna af heildareignasafni hækkað um 15 prósent. Farið úr 26,9 prósentum í 31,3 prósent.

Í byrjun desember var heildareign lífeyrissjóðanna rúmlega 1.700 milljarðar króna eða svipuð og í árslok 2007. Næstum öll ávöxtun ársins 2008 hefur því nú þegar þurrkast út vegna niðursveiflunnar og bankahrunsins. Innlend hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna var lítil í byrjun desember eða um 2 prósent af heildareign sjóðanna. Í lok ársins 2007 var innlend hlutabréfaeign um 14 prósent af heildareignasafni sjóðanna. Munurinn skýrist öðru fremur af hruni bankanna þriggja, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, en lífeyrissjóðirnir voru meðal stærstu eigenda þeirra.

Ekki tími til að selja

Þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt sé að eignir lífeyrissjóðanna muni falla umtalsvert í verði ef krónan styrkist þá telur Tryggvi ekki að sjóðirnir muni hlaupa til og selja eignirnar. Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða sé til langs tíma og sveiflur, hversu miklar sem þær eru, þurfi ekki endilega að leiða til varanlegrar verðmætarýrnunar. „Ég reikna ekki með því að við förum að selja hlutabréf núna. Við erum langtímafjárfestar og verðum að þola sveiflur. Hlutabréfamarkaðir hafa lækkað mikið og okkur finnst ekki rétt að selja á þessum tíma. Við væntum þess að hlutabréfaeign sjóðanna eigi eftir að hækka í verði þegar fram í sækir. Öðru máli gegnir um erlend ríkisskuldabréf. Þau hafa hækkað mikið í verði undanfarið.“

Eiga mikið undir

Ekki hefur enn verið leyst úr þeirri stöðu sem lífeyrissjóðirnir í landinu eru í vegna gjaldmiðlaskiptasamninga sem þeir gerðu við bankana þrjá.
Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa fundað með skilanefndum bankanna þriggja í von um að fá botn í það á hvaða gengi samningar verða gerðir upp.

Miðað við gengisvísitöluna 175 skulda lífeyrissjóðirnir bönkunum um 70 milljarða króna þar sem samningar þeirra miðuðust við það að verja eigur með því að hagnast á styrkingu krónunnar. Lífeyrissjóðirnir geta ekki nema að litlu leyti skuldajafnað kröfur þar sem inneignir sjóðanna eru ekki alltaf við sömu banka og gjaldmiðlaskiptasamningarnir voru gerðir við. Deilt hefur verið um það við hvaða gengisvísitölu á að miða. Bankarnir segja markaðsgengi þann dag sem bankarnir féllu en það var
misjafnt eftir því við hvaða banka er miðað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert