Ríkislögreglustjóri hafnar því að embætti hans hafi viljað ganga mun harðar fram gegn mótmælendum í janúar, en gert var. Hann staðfestir þó í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér, að skoðaðar hafi verið hugmyndir um að flytja óeirðabíla til landsins frá dönsku lögreglunni. Eftirfarandi er yfirlýsing ríkislögreglustjóra:
„Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, 6. febrúar 2009, var fjallað um að til hafi staðið að flytja hingað til lands óeirðabíla frá dönsku lögreglunni meðan á mótmælahrinunni stóð í Reykjavík. Í fréttinni var einnig tekið fram að ríkislögreglustjóri hafi viljað ganga miklu harðar fram gegn mótmælendum en gert var. Þetta er ósatt enda lagði ríkislögreglustjóri sérstaka áherslu á að lögreglan gengi ekki harðar fram en þörf krefði.
Ríkislögreglustjóri vill árétta að mjög óvenjulegt ástand ríkti í
höfuðborginni þegar mótmælaaðgerðirnar stóðu sem hæst. Eldar loguðu, skemmdir voru unnar á alþingishúsinu og stjórnarráðinu og ráðist var á lögreglumenn sem voru að sinna störfum sínum og þeir slasaðir alvarlega. Þjálfun og búnaður þeirra kom í veg fyrir að verr færi.
Eitt af hlutverkum lögreglunnar er að tryggja öryggi borgaranna og lögreglumanna í starfi. Við þær aðstæður sem hér ríktu í janúarmánuði síðastliðnum lagði ríkislögreglustjóri til mannskap til löggæslustarfa bæði úr eigin liði og frá nálægum lögregluembættum auk þess að útvega lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu margvíslegan búnað.
Meðal þess sem ríkislögreglustjóri kannaði, meðan á þessu óvenjulega
ástandi stóð, var hvort rétt væri að leita liðsinnis dönsku lögreglunnar og fá hingað til lands sérbúnar bifreiðar, en náið samstarf er á milli ríkislögreglustjóra Norðurlandanna. Þetta var kannað í fullu samráði embættisins, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðherra. Sem betur fór lauk mótmælunum á friðsamlegum nótum og því var það sameiginleg ákvörðum þeirra sem að málinu komu að ekki væri þörf fyrir umræddar lögreglubifreiðar.
Meðan á mótmælunum stóð var mikið álag á lögreglumönnum og vill ríkislögreglustjóri árétta að þeir stóðu sig undantekningarlaust vel undir gríðarlegu álagi. Lögreglan starfaði sem ein heild undir sameiginlegu skipulagi. Enginn ágreiningur var um markmið og leiðir og náið samstarf á milli embætta um aðgerðir.
Ríkislögreglustjóra þykir miður að fréttastofa Ríkisútvarpsins skuli reyna að gera embættið tortryggilegt með þessum fréttaflutningi sínum.
Haraldur Johannessen,
ríkislögreglustjóri“