Gleði og sorg á Skólastígnum

Einar Ingi Einarsson og Lára Þórðardóttir hafa notið umönnunnar og …
Einar Ingi Einarsson og Lára Þórðardóttir hafa notið umönnunnar og fræðslu á dagdeildinni síðustu fjóra mánuði og dásama dvölina þar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Það var glatt á hjalla á Skólastíg 7 á Akureyri í gær þegar blaðamaður kom í heimsókn, en loft þó lævi blandið. Þetta var síðasti starfsdagurinn á dagdeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri (FSA) á þessum stað; henni hefur verið lokað í núverandi mynd en sameinast göngudeild stofnunarinnar frá og með komandi hausti á nýjum stað.

Tíu manns hafi notið leiðbeiningar starfsfólksins á Skólastíg síðustu fjóra mánuði en hópurinn var útskrifaður í gær. Í tilefni dagsins var boðið upp á dýrindis lambakjöt í hádeginu og tertu með kaffinu á eftir. Allir mettir og glaðir en sorgbitnir engu að síður.

Deildinni er lokað í sparnaðarskyni. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd og fólkið sem útskrifast nú af Skólastígnum tekur undir þá gagnrýni.

„Á göngudeildinni er miklu meira um lyfjagjöf en hér er fólki kennt að takast á við sín vandamál,“ segir maður sem notað hefur geðlyf í mörg ár en segist að mestu hættur því eftir dagdeildarmeðferðina. Notar enn svefnlyf en batinn eftir fjóra mánuði á dagdeildinni sé ótrúlegur.

Annar segir lækninn sinn á göngudeildinni frábæran og hann vilji ekki fyrir nokkra muni gagnrýna starfsemina þar, en ólíku sé saman að jafna og læknarnir hafi einfaldlega ekki þann tíma sem þeir vilji fyrir hvern sjúkling. „Þar kom maður í 20 mínútna viðtal einu sinni í mánuði og var sendur heim með lyf í nesti. Það var veruleiki sem ég hélt ég þyrfti að búa við alla tíð. Að koma hingað gaf mér alveg nýja von.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert