Hundarnir máttu ekki koma í bíó

Chiuhuahua hundarnir reyndust ekki mega koma í bíó.
Chiuhuahua hundarnir reyndust ekki mega koma í bíó. Morgunblaðið/Kristinn

Áhugasamir hundaeigendur sem ætluðu að fara með chiuhuahua hunda sína í bíó í dag urðu frá að hverfa þar sem heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leyfði ekki hundunum að koma í bíó. 

Bylgjan og Sambíóin höfðu auglýst að chiuhuahua hunduð væri í dag boðið í bíó í Álfabakka á sérstaka hundaforsýningu myndarinnar Beverly Hills Chiuhuahua og að þeir mættu taka eigendur sína með sér. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leyfði það hins vegar ekki. Sumir eigendur fóru heim með hunda sína, meðan aðrir létu sækja þá til þess að geta sjálfir séð myndina hundalausir. 

Að sögn Sindra Ásbjörnssonar, vaktstjóra bíósins, hafði gleymst að sækja um tilskilin leyfi fyrir sýningunni og gera viðeigandi ráðstafanir og því var sýningin stöðvuð. Bendir hann á að sótthreinsa hefði þurft allan salinn eftir sýninguna ef ske kynni að einhver með bráðaofnæmi fyrir hundum væri meðal sýningargesta á næstu sýningum eftir hina sérstöku hundasýningu.

Aðspurður segir Sindri leiðinlegt að ekki hafi tekist að halda hina sérstöku hundasýningu í dag, en vonar að hægt verði að koma því við síðar. Tekur hann fram að þá verði allra nauðsynlegra leyfa aflað. Tekur hann fram að allir hundaeigendur sem þurftu frá að hverfa vegna málsins fái sent gjafabréf fyrir ónæðið. Segist hann reikna með að rúmlega þrjátíu gjafabréf verði send út.

Segir hann hundasýninguna hafa mælst vel fyrir meðal eigenda, sem fannst þetta skemmtileg tilbreyting, þó hún hafi orðið svona endasleppt. Tekur hann fram að allir eigendur hafi yfirgefið bíóið sáttir þrátt fyrir uppákomuna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert