Ingimundur Friðriksson, einn þriggja bankastjóra Seðlabanka Íslands baðst í dag lausnar úr embætti. Ingimundur og Eiríkur Guðnason, svöruðu síðdegis bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra en hún fór í vikunni fram á að allir þrír bankastjórar Seðlabankans biðjist lausnar og semji um starfslok.
Ráðherra fór fram á að bréfinu yrði svarað eigi síðar en 5. febrúar eða á fimmtudag en bankastjórarnir báðu um frest til föstudags, þar sem Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar var væntanlegur til landsins á fimmtudagskvöld.
Með bréfi sem Ingimundur Friðriksson sendi forsætisráðherra síðdegis í dag, biðst hann lausnar úr embætti frá og með næstkomandi mánudegi og hefur ráðherra fallist á beiðnina.
Ekki fengust upplýsingar um innihald bréfs Eiríks Guðnasonar, að öðru leyti en því að hann baðst ekki lausnar úr embætti.
Ekkert svar hafði í kvöld borist frá Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabankans.
Tafir á svörum bankastjóranna hafa vakið athygli erlendra fjölmiðla, En AP fréttastofan greindi frá því í gær, að bankastjórarnir virtu forsætisráðherra Íslands að vettugi.
Þær upplýsingar fengust úr forsætisráðuneytinu í kvöld að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra myndi nú íhuga stöðu málsins og hvernig brugðist yrði við gagnvart þeim Eiríki Guðnasyni og Davíð Oddssyni.