Greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafa vaxið hröðum skrefum undanfarna tvo mánuði í takt við stóraukið atvinnuleysi. Svo kann að fara, að Atvinnuleysistryggingasjóður verði orðinn tómur í árslok. Sjóðurinn greiðir 1.600-1.700 milljónir út í janúar en greiddi að meðaltali 260 milljónir á mánuði í fyrrasumar.
Að sögn Sigurðar P. Sigmundssonar, forstöðumanns rekstrarsviðs Vinnumálastofnunar, er unnið að því að gera upp stöðu sjóðsins fyrir árið 2008. Sigurður áætlar að um áramótin hafi um 15 milljarðar verið til í sjóðnum. Atvinnuleysi hefur verið lítið um margra ára skeið og því hefur talsverð upphæð safnast þar fyrir.
Sigurður reiknar með að tekjur sjóðsins af atvinnutryggingagjaldi verði um 5 milljarðar króna á þessu ári, auk eins milljarðs króna í vaxtatekjur. Að viðbættum 15 milljörðunum hefur sjóðurinn því úr að spila 21 milljarði á árinu.Hann segir að sé miðað við að atvinnuleysi verði 7% á þessu ári muni sjóðurinn geta staðið undir greiðslum atvinnuleysisbóta. Í nýendurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir 7,8% meðalatvinnuleysi árið 2009 en Vinnumálastofnun áætli að það geti orðið meira.
Talið er að hvert prósentustig atvinnuleysis kosti 3,1 milljarð á árinu 2009. Ef atvinnuleysi verður 7,8% á árinu, eins og ráðuneytið spáir, gætu greiðslur á hverjum mánuði numið tveimur milljörðum að meðaltali á mánuði og 24 milljörðum á heilu ári.
Því sé ljóst, að Atvinnuleysistryggingasjóður gæti tæmst fyrir lok ársins, kannski í nóvember eða desember.