Björn: Réttmæt ábending Davíðs

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason mbl.is/Frikki

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að Davíð Oddsson bendi réttilega á að bréf Jóhönnu til seðlabankastjóranna með lítt dulbúnum hótunum sé einsdæmi, ekki eingöngu hér á landi, heldur einnig um allan hinn vestræna heim. Björn vísar á vef sínum í þingræðu sem hann flutti í síðustu viku þar sem hann gagnrýndi  forsætisráðherra varðandi bréfasendingu til bankastjóranna.

„Í ræðu á alþingi 4. febrúar gagnrýndi ég þá aðferð, sem Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafði við að hóta seðlabankastjórum uppsögn með lagasetningarvaldi, ef annað dygði ekki. Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar seðlabankans, sendi Jóhönnu svar í dag og lýsti vanþóknun á bréfi Jóhönnu og aðferðinni við að koma því til viðtakenda. Hann segir réttilega:

„Bréf af þessu tagi með lítt dulbúnum hótunum til embættismanna er einsdæmi, ekki eingöngu hér á landi, heldur einnig um allan hinn vestræna heim. Lög sem eiga að tryggja sjálfstæði seðlabanka og forða pólitískri aðför að seðlabankastjórninni hafa nú verið þverbrotin. Ábyrgð ráðherrans er því mikil.“

Davíð telur bréfið brjóta „allar venjur um embættisleg bréf af þessu tagi“ og það hljóti að hafa verið samið utan forsætisráðuneytisins. Hann telur, að við afsögn Björgvins G. Sigurðssonar hafi mönnum orðið „á stjórnsýsluleg afglöp, þegar brotthlaupinn ráðherra skildi Fjármálaeftirlitið eftir stjórnlaust.“

Þá segir Davíð, að Jóhanna hafi rangtúlkað afsagnarbréf Ingimundar Friðrikssonar, þegar hún hafi sagt hann leggja „framtaki“ hennar lið. Í bréfinu hafi Ingimundar „harmað ósanngjarnar og órökstuddar dylgjur“´í bréfi Jóhönnu og talið hana vega „ómaklega að starfsheiðri sínum og æru!“

Í fyrrnefndri þingræðu sagði ég:

„Ég minnist þess ekki, að hæstvirtur forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hafi gert athugasemdir við ákvarðanir Seðlabanka Íslands í peningamálum, á meðan ég sat með henni í ríkisstjórn.“

Sjá vef Björns Bjarnasonar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka