Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefur svarað bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að hann hafi aldrei hlaupið frá verki sem hann hafi tekið að sér og það muni hann ekki gera nú. Það er því ljóst að hvorki Davíð né Eiríkur Guðnason verða við beiðni Jóhönnu um afsögn úr starfi seðlabankastjóra. Ingimundur Friðriksson hefur hins vegar fallist á beiðni Jóhönnu.
Davíð segir í bréfinu að hann hafi tjáð Jóhönnu að hann myndi ekki svara erindi hennar fyrr en eftir helgi og hún hafi ekki hreyft andmælum við því en hann var staddur erlendis þar til á fimmtudag.
Segir hann bréfið bera öll merki þess að hafa verið ritað utan ráðuneytisins, hvort sem það hefur verið á flokksskrifstofu eða annars staðar. Það brýtur allar venjur um embættisleg bréf af þessu tagi. Vitað er að ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og helsti tengiliður við prógramm Alþjóða gjaldeyrissjóðinn hefur verið þvingaður út úr ráðuneytinu með áður fordæmalausum hætti, að því er segir í bréfi Davíðs til Jóhönnu.
Forsætisráðherrann er sem kunnugt er einnig efnahagsráðherra. Ráðuneytisstjórinn, sem ýtt var út úr ráðuneytinu, er einn kunnasti hagfræðingur landsins og fyrrverandi forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar. Í stað hans kom lögfræðingur, en í bréfi forsætisráðherra virðist það helst fundið formanni bankastjórnar Seðlabankans til foráttu að hann sé lögfræðingur en ekki hagfræðingur, segir Davíð jafnframt í bréfinu.
„Þegar mér varð ljóst hvers konar bréf hafði borist heim til mín og kynnt í áróðursskyni áður en ég hafði tækifæri til að lesa það og frumvarp lagt fram til að fylgja eftir hótun í bréfinu, stóð hugur minn til þess að láta bréfinu ósvarað. Af augljósum ástæðum ber ég mikla virðingu fyrir því embætti sem núverandi forsætisráðherra gegnir. Og þrátt fyrir augljósa annmarka sem eru á öllum þessum málatilbúnaði vil ég ekki láta hjá líða að mín afstaða sé kunn. Ég var skipaður til starfa 20. október 2005 til ákveðins afmarkaðs tíma. Það starf hef ég reynt að rækja eins vel og ég kann. Það gleður mig, að jafnvel þeir sem helst vilja leggja til mín hafa ekki getað fundið neitt málefnalega athugavert við störf mín og reyndar tekið sérstaklega fram að við mín störf sé ekkert að athuga. Ég þurfi bara að fara frá af óefnislegum ástæðum."
Davíð segir að æ fleiri mönnum verði ljóst að formaður bankastjórnar persónulega og bankastjórn Seðlabankans sameiginlega hafi á undanförnum árum aftur og aftur varað við því að í óefni stefndi í bankamálum þjóðarinnar og þrýst á þá sem ábyrgð báru um að bregðast við í tíma. „Það er hlálegt að ráðherra úr hópi þeirra sem hlustuðu ekki og sjálf lyfti ekki litla fingri til þess að stemma stigu við því sem var að gerast skuli nú ganga fram þeim hætti sem hún geri."