Karlmaður var handtekinn nú á sjötta tímanum eftir að hafa framið vopnað rán í Lyfju í Lágmúla í Reykjavík. Tilkynning barst lögreglu um klukkan 17.10 um ránið, en hann kom inn í verslunina vopnaður öxi og heimtaði að fá ákveðin lyf afhent.
Starfsmaður Lyfju elti hann eftir ránið út á götu og gat bent lögreglu á það hvar hann væri niður kominn. Hann komst því ekki langt. Ekki liggur fyrir hvað hann hafði upp úr krafsinu í ráninu sjálfu, en maðurinn er góðkunningi lögreglunnar, að sögn varðstjóra.
Maðurinn hefur nú verið færður í fangageymslur í lögreglustöðinni á Hverfisgötu.