Hvorki Ingimundur Friðriksson né Eiríkur Guðnason, bankastjórar Seðlabankans, sjá ástæðu til að ganga til viðræðna við stjórnvöld um starfslok eða fébætur. Bréf bankastjóranna til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra hafa nú verið birt en svarbréf Davíðs Oddssonar til forsætisráðherra var birt í gær.
Bæði Eiríkur og Ingimundur, vís því á bug að þeir hafi verið ráðnir á pólitískum forsendum. Ingimundur segist aldrei hafa tekið þátt í stjórnmálastarfi né verið félagi í nokkurri stjórnmálahreyfingu. Þá segir Ingimundur að í bréfi forsætisráðherra felist ósanngjarnar og órökstuddar dylgjur og Ingimundur segir forsætisráðherra vega ómaklega að starfsheiðri hans og æru. Í lok bréfsins biðst Ingimundur lausnar en afþakkar viðræður um starfslokagreiðslur.
Eiríkur Guðnason segist í svarbréfi sínu ekki ætla að hætta en það hafi hvarflað að honum að ljúka störfum áður en skipunartími hans rennur út 30. apríl 2012. Í stað þess að setja stjórn Seðlabankans í uppnám núna með tafarlausri breytingu á yfirstjórninni, segir Eiríkur telja heppilegt að breytingin eigi sér hæfilegan aðdraganda.
„Enda þótt starfslok mín yrðu ótímabær, eins og þér farið fram á, hafa mér ekki komið í hug sérstakar fébætur fyrir það. Grein 34 í lögum nr. 70/1996, sem þér vitnið til, felur ekki í sér möguleika á meiri réttindum mér til handa en ég hef nú þegar. Því sé ég engan tilgang að efna til viðræðna á þeim grundvelli,“ segir Eiríkur Guðnason í bréfi sínu til forsætisráðherra.