Fækkar við Seðlabankann

Mótmælt í morgun
Mótmælt í morgun mbl.is/Rax

Heldur hefur fækkað í mótmælendahópnum fyrir utan Seðlabanka Íslands en hópur fólks kom þar saman um áttaleytið í morgun til að mótmæla. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru um 80-90 mótmælendur á staðnum þegar flest var og fóru mótmælin friðsamlega fram.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lýsti í gærkvöld yfir miklum vonbrigðum með afstöðu Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, til beiðni hennar um að hann viki úr embætti. Davíð sendi Jóhönnu í gær bréf, sem birt var á vef Seðlabanka Íslands, þar sem hann kvaðst aldrei hafa hlaupist frá neinu verki sem hann hefði tekið að sér og það myndi hann heldur ekki gera nú.

Davíð sagði meðal annars í svarbréfi sínu að lög sem ættu að tryggja sjálfstæði seðlabanka og koma í veg fyrir pólitíska aðför að seðlabankastjórninni hefðu verið þverbrotin.

Jóhanna sagðist ekki bregðast við einstökum atriðum í bréfi bankastjórans. Unnið yrði áfram að því að skapa frið um helstu stofnanir samfélagsins, ekki síst í þeim tilgangi að endurreisa að fullu traust á fjármálakerfinu. „Er frumvarp það sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á Alþingi og varðar endurskipulagningu á stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands mikilvægt í því sambandi og brýnt að það fái eins skjóta afgreiðslu á Alþingi og unnt er,“ segir í yfirlýsingunni.

Mótmælt við Seðlabanka Íslands í morgun
Mótmælt við Seðlabanka Íslands í morgun mbl.isRax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert