Hagfræðingarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson segja að helsta réttlæting fyrir áframhaldandi gjaldeyrishöftum felist í því, að háar fjárhæðir séu útistandandi í svonefndum jöklabréfum. Segjast Jón og Gylfi telja, að hægt sé að leysa þetta mál og setja krónuna á flot í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Þetta kemur fram í skýrslu, sem þeir Jón og Gylfi hafa unnið um hrun íslenska hagkerfisins undir yfirskriftinni Hagkerfi bíður skipbrot.
Jón sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að hann teldi að það verði tiltölulega lítið mál að leysa jöklabréfamálin. Allir þeir einstaklingar, sem eiga jöklabréfin, skuldabréf sem erlendir bankar gáfu út í krónum, viti hvernig staðan er á Íslandi. Ef þeim yrði gert tilboð um að kaupa skuldabréfin á miklum afslætti myndu flestir eða allir taka því. Þá væri hægt að leyfa krónunni að fljóta og afnema gjaldeyrishöftin en það sé frumskilyrði fyrir því að fólk fái trú á Íslandi á ný.
Þá kom fram hjá þeim, að verðbólgan væri óðum í rénun og raunar væri frekar hætta á verðhjöðnun.
Gylfi sagði, að lykillinn að því að Ísland komist út úr erfiðleikunum sé að atvinnulífið hafi aðgang að fjármagni. Nú njóti íslenskar stofnanir og fyrirtæki einskis trausts í útlöndum. Trúverðugleiki Íslendinga á alþjóðlegum fjármálamarkaði sé horfinn og hættan sé sú að Íslendingar einangrist og Ísland verði fátæktarafkimi.
Nauðsynlegt sé, að tengja Ísland við Evrópu þannig að Íslendingar fái aðgang að evrópskum fjármagnsmarkaði og endurvinna traust á stofnunum og þjóðfélaginu. Íslendingar megi ekki mála Evrópusambandið sem fjandvin þótt þeir hafi sjálfir gert mistök og sumir hafi málað bæinn rauðan.