Mótmælandi hefur lagt fram kæru á hendur Ólafi Klemenssyni, sem starfar sem hagfræðingur hjá Seðlabankanum, fyrir að hafa vísvitandi ekið á sig við bankann. Hermann Valsson, sem tók þátt í mótmælunum í morgun, vísar því á bug að hann hafi skemmt bifreið Ólafs. „Vísvitandi bakkaði hann á mig,“ segir Hermann.
„Ég horfi á hann, í augun á honum, og hann gefur í og bakkar á mig,“ segir Hermann í samtali við mbl.is. Hann segist vera aumur í hnjánum og lærunum, en hann hafnaði ofan á skotti bifreiðarinnar. Hermann segir að Ólafur hafi þá bremsað í snatri. „Hann stoppar ekki til að athuga hvað hafi gerst heldur keyrir hann beinustu leið í burtu út af bílastæðinu.“
Hermann var á meðal mótmælenda sem söfnuðust saman við bílainnkeyrslu seðlabankans í morgun. Hann segir að Ólafur hafi ekið mjög hratt inn á bílastæðið „og ógætilega miðað við allan þann fjölda sem var á bílastæðinu.“
Ólafur sakar Hermann um að hafa lamið í bifreið sína og hefur lagt fram kæru á hendur honum. Ólafur sagði í samtali við mbl.is að Hermann hafi slegið tvisvar í bifreiðina að aftan og hliðarrúðu einnig. Það sjái á bílnum og hann beyglaður að aftan.
Þessu vísar Hermann á bug. „Hann keyrir á mig og ég dett á bílinn,“ segir Hermann. Þá vísar hann því einnig á bug að aðrir mótmælendur hafi verið að berja í bifreiðina. Mótmælin hafi verið friðsamleg og öll samskipti við lögregluna góð.