Harma framkomu Breta gagnvart Íslandi

Horft yfir Reykjavík.
Horft yfir Reykjavík. mbl.is/RAX

Evrópusamtök smáfyrirtækja (ESBA) hvetja ríkisstjórnir Íslands og Bretlands til að íhuga með hvaða hætti ákvarðanir þeirra geti skaðað smáfyrirtæki. Þá eru aðgerðir Breta gagnvart Íslendingum harmaðar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ESBA. Þar segir að þær harkalegu aðgerðir sem bresk stjórnvöld gripu til gagnvart Íslandi þann 8. október sl. hafi skapað alvarleg vandamál.

Með því að beita hryðjuverkalöggjöfinni og frysta þannig eignir Landsbankans hafi ýmsar spurningar vaknað, t.d. varðandi misnotkun á valdi og hvernig ein þjóð getur ráðskast með aðra þjóð sem tilheyrir Efnahagsbandalagi Evrópu.

Fram kemur í tilkynningunni að bresk stjórnvöld hafi ekkert hugsað í það hvaða afleiðingar beiting hryðjuverkalaganna myndi hafa á íslensk smáfyrirtæki.

Aðeins tveimur dögum eftir að eignir Landsbankans voru frystar hafi tvö af stærstu viðskiptatryggingarfélögum heims lokað á allar lánalínur til íslenskra fyrirtækja, sem starfa við inn- og útflutning. Þetta hafi verið gert án tillits til viðskiptasögu viðkomandi fyrirtækja eða fjárhagsstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert