Íslendingar „nýju Pólverjarnir“

Margir sækja í olíuiðnaðinn í Noregi
Margir sækja í olíuiðnaðinn í Noregi Reuters

„Nýju Pólverjarnir" er fyrirsögn viðtals Aftenposten við tvær íslenskar konur, Ingunni Pétursdóttur og Guðbjörgu Jónsdóttur, sem hyggjast ráða sig sem flutningabílstjóra í Noregi. Báðar störfuðu þær við akstur á Íslandi, en misstu vinnuna eftir að kreppan skall á í haust.

Þrjár vikur eru síðan þær stöllur skráðu sig á ráðningaskrifstofu í Sandnesi í Noregi. Núna búa þær í íbúð í Stafangri og bíða eftir því að gengið verði frá pappírum þannig að þær geti fengið sér vinnu á bak við stýrið á flutningabílum. Segir í frétt Aftenposten að Ingunn hafi rekið sitt eigið flutningsfyrirtæki á Íslandi og hafi aldrei komið til Noregs áður. Guðbjörg hafi hins vegar starfað sem bílstjóri, bæði í Noregi og víðar í Skandinavíu.

Segir að ekki sé langt síðan að báðar hafi þær misst vinnuna heima á Íslandi og greina þær frá því að margir sem þær þekkja séu í svipaðri stöðu. Sumir búi nánast á götunni, lifi á vinum og fjölskyldu og sofi þar sem pláss sé fyrir þá. Þá hafi samstarfsmenn þeirra misst flutningabíla sína þegar þeir gátu ekki lengur borgað af þeim. „Núna eru þeir á leiðinni til Oslóar í atvinnuleit en þeir eiga konur og börn á Íslandi," segir Guðbjörg.

Þær Ingunn og Guðbjörg segjast ekki vita hversu lengi þær muni dvelja í Noregi en þær eru meðal 200 Íslendinga sem eru á skrá hjá atvinnumiðluninni Fleksi Norge AS. Af þeim hafa um 10 fengið vinnu, að sögn yfirmanns þar. Áður hefur Fleksi Norge AS sérhæft sig í atvinnumiðlun fyrir pólska verkamenn, en í nóvember sl. hafi skrifstofan staðið fyrir atvinnukynningu á SAS-hótelinu í Reykjavík, þar sem viðbrögðin voru góð.

Svipaða sögu hafa aðrar atvinnumiðlanir í Noregi að segja. „Það er mikill ágangur Íslendinga sem óska eftir vinnu í Noregi núna," segir ráðgjafi hjá atvinnumiðluninni Nav Eures, sem er evrópskt atvinnumiðlunarnet innan Evrópska efnahagssvæðisins. Íslendingarnir sæki sérstaklega í að starfa í vesturlandsfylkjunum Rogaland, Hordaland og Møre þar sem töluvert er um vinnu fyrir verkfræðinga, sérstaklega í olíu- og gasiðnaðinum.

Norska Eures miðlunin tók þátt í atvinnukynningu í Reykjavík í nóvember, þar sem greinilegur áhugi var á Noregi hjá fólki í atvinnuleit. Og ráðgjafinn segir Íslendinga vinsæla starfskrafta hjá norskum atvinnuveitendum.

Frétt Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert