Lögin ganga gegn ákvæðum stjórnarskrár

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði því í dag að fresta máli sem höfðað var gegn Glitni á meðan greiðslustöðvun bankans stendur. Segir í úrskurði dómarans að lög um fjármálafyrirtæki, sem breytt var í nóvember á síðasta ári, gangi gegn ákvæðum stjórnarskrár og að réttindum, sem stjórnarskránni sé ætlað að tryggja, verði ekki breytt eða þau felld úr gildi með almennri lagasetningu.

Lögunum um fjármálafyrirtæki var breytt í nóvember í fyrra og er breytingunum ætlað að verja eignir íslensku bankanna. Segir í 2. gr. lagaanna: „Hafi dómsmál verið höfðað gegn fjármálafyrirtæki sem síðar er veitt heimild til greiðslustöðvunar, þá verður meðferð þess máls ekki fram haldið meðan á greiðslustöðvun stendur nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um opinbert mál sé að ræða og krafist sé refsiviðurlaga sem ákveða má á hendur fjármálafyrirtæki."

Fram kom í greinargerð með frumvarpinu, að markmið þess væri að gera breytingar á núgildandi lögum sem snéri að gjaldþrotaskiptum og greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir stjórn á. Þingmenn VG gagnrýndu frumvarpið hins vegar harðlega og sögðu að réttarfarslegt slys væri í uppsiglingu. 

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila."

Í  úrskurði héraðsdóms segir, að framangreint ákvæði stjórnarskrárinnar sé fortakslaust og verði þeim réttindum sem því er ætlað að tryggja ekki breytt eða þau felld úr gildi með almennri lagasetningu. Breyti þá engu þótt ákvæðið, sem Glitnir byggi frestkröfu sína á, sé sett við aðstæður sem telja megi óvenjulegar í þjóðfélaginu.

Ágreiningur í málinu sem tekið var fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur laut að skaðabótakröfu manns á hendur Glitnis sem maðurinn byggir á því að skilyrði til gjaldþrotaskipta á búi hans, af kröfu Glitnis, hafi ekki verið fyrir hendi þegar úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp á árinu 2002. Krefst maðurinn 60 milljóna króna í bætur auk dráttarvaxta.

Lögin í heild



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert